Vest­manna­eyjar­bær hefur greitt 566 milljónir í rekstur dvalar­heimilis: „þrátt fyrir að ríkinu beri að fjár­magna þann rekstur á fjár­lögum“

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur falið Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra að óska eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra vegna hallareksturs Hraunbúða og ófullnægjandi framlögum ríkisins með rekstrinum. Rætt var um mál dvalar- og hjúkrunarheimilisins á fundi bæjarstjórnar Eyja í gær. 

Vestmannaeyjabær hefur lagt töluvert fé til reksturs Hraunbúða, þrátt fyrir að ríkinu beri að fjármagna þann rekstur á fjárlögum að því er fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar.

Þar kemur fram að framlög Vestmannaeyjabæjar til rekstursins hafi aukist frá ári til árs án þess að bærinn gæti haft þar áhrif á. Í lok árs 2009 skulduðu Hraunbúðir Vestmannaeyjabæ rúmar 176 milljónir króna. Til viðbótar er uppsafnaður halli frá 2010 kominn í 390 milljónir króna, eða samtals 566 milljónir króna á verðlagi hvers árs.

„Þessi staða er óviðunandi og getur ekki gengið svona áfram. Ríkið þarf að uppfylla skyldur sínar, en ekki skýla sér á bak við Sjúkratryggingar Íslands,“ segir í fundargerð bæjarstjórnar. 

Bæjarstjórnin segir Vestmannaeyjabæ vel í stakk búinn til að reka Hraunbúðir, en að ríkið þurfi þá að greiða framlög sem standi undir þeim rekstri eins og kröfulýsing ríkisins segir til um.

Íris bæjarstjóri mun óska eftir fundi heilbrigðisráðherra og einnig eiga samtal við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu um áform samtakanna í þessum efnum.