Verð ég trúlofuð í kvöld? hún fór grátandi heim

Dagur 193 - Fall er fararheill.

Það stóð mikið til í gær. Stúlka ein hafði lýst yfir miklum áhuga á mér á Tinder og mér fannst hún ekkert ólekker heldur. Þá var ekki verra að hún hafði ekki sent myndir af sér með buxurnar á hælunum heldur í sparikjólnum og því óþarfi að senda henni kristilega mynd af mér á móti svo ég sendi henni líka mynd af mér í sparikjólnum. Þetta var ást við fyrstu mynd og trúlofun ákveðin með hraði á sunnudag klukkan þrjú þótt trúlofunin myndi byrja með blindu stefnumóti þar sem við höfum einungis séð hvor aðra á mynd.

\"\"

Svo rann sunnudagurinn upp, ekkert sérstaklega fagur enda versta Calima sem sést hefur í Paradís í mörg ár. Ég dreif samt í að ryksuga og skipta um á rúmunum og fara í bað sem var reyndar óþarfi svona skömmu eftir jólin og svo gerði ég mig sæta og beið og ég beið og ég beið. Loksins sendi hún mér skilaboð og tjáði mér að of dimmt væri orðið og hún hefði ekki fundið húsið í sandstorminum og hefði því farið grátandi heim á Paradísarströnd með ónýta ondóleringuna. Í stað þess að kveðja mig fyrir fullt og allt vildi hún hitta mig í dag í staðinn. Kvöldið var svo notað til að skiptast á myndum, en engum ósiðlegum enda stúlkan á miðjum aldri og rammkaþólsk að auki.

Ég verð því að endurtaka leikinn í dag. Það þýðir ekkert að gefast upp eftir fyrstu tilraun. Það er alveg kristaltært eins og veðrið, allavega miðað við daginn í gær.

En nú kemur stóra spurningin til ykkar lesendur mínar. Verð ég trúlofuð í kvöld eða er ég alveg kolómöguleg og þarf að vera single um sinn eins og síðustu 35 árin? Þar er efinn og ykkar að svara!

Á myndinni sést Akraborgin fara í morgun, Bencomo Express að koma og sést aðeins í afturendann á Sævari.

\"\"