Hagavagninn er of stór: „þetta á sér langa sögu frá tíð fyrri eiganda [...] málið er í vinnslu“

Hagvagninn sem stendur fyrir framan Vesturbæjarlaug í Reykjavík og er eitt af gömlu táknum Vesturbæjarins er samkvæmt gildandi deiliskipulagi tíu fermetrum of stór.

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að skipulagsyfirvöld séu jákvæð fyrir því að breyta núverandi deiliskipulagi en þó með þeim fyrirvara að fjarlægja þurfi skyggni af vagninum ef ráðist verði í stækkun Vesturbæjarlaugar í framtíðinni.

Ákváðu að opna metnaðarfullan skyndibitastað

Það eru hjónin Rakel Þórhallsdóttir og Jóhann Guðlaugsson sem eiga vagninn í dag en þau, ásamt rapparanum Emmsjé Gauta og veitingamanninum Ólafi Erni Ólafssyni tóku höndum saman árið 2018 og ákváðu að opna metnaðarfullan skyndibitastað. Í kjölfarið var vagninn rifinn og nýr byggður í staðinn. Á sínum tíma sagði Emmsjé Gauti:

„Ég hef oft verið að labba fram hjá Hagavagninum og hugsað með mér að hann sé algjörlega kennileiti hérna í Vesturbænum. Ég var núna um daginn að labba þarna fram hjá og sá að það var svona „Til sölu“ skilti í glugganum. Það gerði mig rosalega spenntan og ég fór bara að pæla í hvað myndi koma þarna næst – verður þetta kannski hótel, einhvers konar pulsuhótel eða hvað? Ég sé að það er eitthvað í gangi og sting hausnum inn og þar eru þau Rakel og Jói í óða önn að brjóta og bramla.“ Eitt leiddi af öðru, skyndilega var hann kominn á fund með þeim svo úr varð samstarf. Hann sagði að þarna rættust ákveðnir draumar hans, bæði gæti hann loksins búið til McGauta-hamborgarann og orðið meiri Vesturbæingur.

Eigendur vagnsins segjast vera í góðu samstarfi við borgina vegna málsins en að það eigi sér langa sögu frá tíð fyrri eiganda hans.

Baráttan um stækkun vagnsins á sér sögu allt frá árinu 1998 en árið 2004 vildi fyrri eigandi stækka vagninn úr 18 fermetrum upp í 55 fermetra. Niðurstaðan varð sú að heimila aðeins stækkun upp í 27 fermetra og var hún kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Eigandinn fékk niðurstöðunni þó ekki breytt.

Jákvæður fyrir því að heimila stækkunina

Þegar núverandi eigendur byggðu nýjan vagn varð hann að endingu 37 fermetrar að stærð og því tíu fermetrum stærri en gildandi deiliskipulag leyfði. Í lok árs 2019 óskuðu eigendur vagnsins því eftir leyfi á áður gerðum breytingum og var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 14. janúar síðastliðinn. Niðurstaðan varð sú að byggingarfulltrúi er jákvæður fyrir því að heimila stækkunina í vinnu við nýtt skipulag en ekki verði lagt til að heimila lóð undir vagninn né heimila frekari stækkanir.

„Þetta á sér langa sögu frá tíð fyrri eiganda. Við eigum í góðu samstarfi við borgina. Málið er í vinnslu og það er í raun formsatriði að ljúka þessu,“ segir Rakel Þórhallsdóttir, einn eiganda Hagavagnsins í samtali við Fréttablaðið.

Skýli á núverandi vagni fer lítillega inn á byggingarreit fyrir mögulega stækkun Vesturbæjarlaugar og ef af þeirri stækkun yrði í framtíðinni þyrfti að fjarlægja skýlið. Þá er gert ráð fyrir því að breytingartillaga á deiliskipulaginu verði samþykkt á næstu vikum eða mánuðum og í framhaldinu verði hægt að samþykkja nýjar teikningar fyrir Hagvagninn.