Veikindin gleymdust þegar ungur íslendingur græddi 30 milljónir

Báðir vinningshafarnir sem skiptu með sér fimmfalda Lottópottinum um síðustu helgi hafa gefið sig fram við Íslenska getspá.  Annar miðinn var keyptur í Krambúðinni í Firðinum, Hafnarfirði en hinn var keyptur í Lottó appinu og færðu þeir eigendum sínum rúmlega 30,2 milljónir – á mann.  

Ungur fjölskyldufaðir sem keypti miðann sinn í Lottó appinu sagði tilhugsunina við að geta greitt upp lánin sín og þá sérstaklega húsnæðislánið væri virkilega góða. Óskemmtileg veikindi hefðu verið að ganga á heimilinu yfir síðustu helgi en það var fljótt að gleymast eftir að fjölskyldan uppgötvaði vinninginn í appinu.  

Það var svo eldri maður sem var heldur betur glaðhlakkalegur þegar hann kom til Getspár ásamt dóttur sinni og barnabarni en meðferðis var einnig vinningsmiðinn góði sem var keyptur í Krambúðinni í Firðinum, Hafnarfirði. Maðurinn er dyggur lottóspilari og spilar alltaf með sömu tölurnar sem hann merkir sjálfur á miðann með blýanti enda mikið fyrir að halda í hefðina þegar kemur að Lottóinu.