Vatnsmýri fær póstnúmerið 102 – Íbúar í Skerjafirði ósáttir

Vatnsmýri fær póstnúmerið 102 – Íbúar í Skerjafirði ósáttir

Mynd: Vikudagur
Mynd: Vikudagur

Frá og með 1. október næstkomandi verður póstnúmerið 102 tekið upp fyrir Vatnsmýri. Þá mun sá hluti póstnúmers 101 sem er sunnan Hringbrautar breytast í póstnúmerið 102. Mörk fyrir póstnúmer 105 og 107 haldast óbreytt. Íbúar í Skerjafirði eru ósáttir við ákvörðunina.

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að póstnúmerið 102 sé tekið upp að frumkvæði Reykjavíkurborgar sem óskaði þess fyrr á árinu að það yrði tekið upp á viðkomandi svæði þar sem á sér stað mikil uppbygging um þessar mundir. Í upphafi þessa árs samþykkti borgarráð tillögu þess efnis.

„Reykjavíkurborg óskaði eftir því að við myndum taka upp póstnúmerið 102 fyrr á árinu en stórt og mikið hverfi er í uppbyggingu á því svæði sem um ræðir. Við töldum mjög mikilvægt að bregðast við þessari beiðni frá borginni. Einhverrar óánægju hefur gætt meðal íbúa á þessu svæði vegna breytingarinnar en ég vil taka það fram að breytingar á póstnúmerum hafa almennt ekki áhrif á viðskiptavini þegar kemur að dreifingu pakka og bréfa,“ segir Hörður Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.

Ósætti meðal íbúa í Skerjafirði

Óánægjunnar sem Hörður vísar til hefur gætt hjá íbúum í Skerjafirði. Breytingin þýðir að íbúar á svæðinu munu frá og með 1. október búa í póstnúmeri 102 í stað 101. Auk þess munu bæði Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur tilheyra póstnúmeri 102.

„Íbúar hverf­is­ins hafa verið hlunn­farn­ir. Það hef­ur komið í ljós að íbú­ar hverf­is­ins kæra sig ekki um að skipta um póst­núm­err“, sagði Árdís Pét­urs­dótt­ir, einn stjórn­ar­manna Prýðifé­lags­ins Skjald­ar - íbúa­sam­taka í Skerjaf­irði, í samtali við Morgunblaðið í sumar.

Sagði hún að íbú­ar Skerja­fjarðar séu marg­ir mót­falln­ir þess­ari til­lögu, sér í lagi vegna þess hve hverfis­vit­und­in í Skerjaf­irði sé sterk. Árdís bætti því við að borg­ar­yf­ir­völd hafi beðið Prýðifé­lagið um um­sögn um málið, hvar Prýðifé­lagið hreyfði mót­mæl­um, en aldrei hafi verið haft sam­band við fé­lagið aft­ur eft­ir það.

Þegar breytingin fer í gegn í byrjun næsta mánaðar verða á sama tíma gerðar nokkrar breytingar á landsbyggðinni, en helsti tilgangur þeirra er að afmarka sveitarfélög með sérstökum póstnúmerum og einfalda þannig flokkun og dreifingu. Þá verða einnig gerðar nokkrar minniháttar breytingar í póstnúmerum á höfuðborgarsvæðinu.

Nýjast