Valhöll logar: „Ættarvitar” Engeyinga aldrei náð átt - „Hefur ekki borið sitt barr síðan“

Valhöll logar: „Ættarvitar” Engeyinga aldrei náð átt - „Hefur ekki borið sitt barr síðan“

Davíð Oddsson gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn, formanninn Bjarna Benediktsson og svo Halldór Blöndal harðlega í Morgunblaðinu í dag. Þetta er aðra vikuna í röð sem Davíð nýtir Morgunblaðið til að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn. Átök í Sjálfstæðisflokknum virðast nú eiga sér stað fyrir opnum tjöldum og logar allt innandyra í Valhöll. Hringbraut greindi frá því fyrr í dag að Davíð sakar Bjarna um að hafa gengið á bak orða sinna. Í fyrri frétt sem byggð er á Reykjavíkurbréfi Davíðs segir að ekki hafi staðið til að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, yrði endurskipaður í starf sitt að loknu fyrra ráðningartímabili sínu árið 2014 og eftir að hann var samt endurskipaður stóð aðeins til að hann myndi vinna í eitt ár, að því er Davíð Oddsson fullyrðir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

Bjarni birti umfjöllun um 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í Fréttablaðinu og kom það á óvart, enda Morgunblaðið lengi verið heimavöllur Sjálfstæðismanna. Þá gagnrýndi varaformaður flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir einnig Davíð Oddsson en hann hefur eins og áður segir svarað kröftuglega fyrir sig í Reykjavíkurbréfi blaðsins.

 „Ættarvitar” Engeyinga aldrei náð átt

Davíð hnýtir í Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra, sem í seinustu viku skrifaði bréf í Morgunblaðið þar sem Davíð var skammaður fyrir m.a. að hafa hunsað 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins, og einnig afstöðu hans til þriðja orkupakkans. Þá einnig fyrir að halda því ranglega fram að í honum fælist framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. Davíð gefur í skyn að Halldór sé of leiðitamur stefnu Engeyinga, sem Halldór er af í móðurlegg, og Bjarni Benediktsson í föðurætt.

„Halldór Blöndal gat stundum forðum tíð haft áttavita sem mátti hafa hliðsjón af. En hann ratar illa eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri,” segir Davíð. Hafi „ættarvitar aldrei náð nokkurri átt. Aldrei.”

Davíð sakar Halldór jafnframt um að hafa tekið afstöðu gegn Sjálfstæðismönnum í Icesave deilunni á sínum tíma.

„Flokkurinn hans og okkar hefur ekki borið sitt barr síðan,” segir Davíð.

Nýjast