Útsendarar Sjálfstæðisflokksins skráðu skoðanir fólks: 392 útsendarar njósnuðu í fyrirtækjum – Skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna

Útsendarar Sjálfstæðisflokksins skráðu skoðanir fólks: 392 útsendarar njósnuðu í fyrirtækjum – Skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna

Sjálfstæðisflokkurinn átti nærri 400 trúnaðarmenn skráða á vinnustöðum á sjötta áratug síðustu aldar. Í bók Guðna Th. Jóhannessonar um ævi Gunnars Thoroddsen kemur fram að fulltrúarnir hafi skráð stjórnmálaskoðanir nágranna og þær verið færðar í skrár í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins sem þá voru við Suðurgötu í Reykjavík.

Þannig hefst grein sem birt var í DV árið 2010, skrifuð af Jóhanni Haukssyni blaðamanni. Vann hann greinina upp úr bók forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings sem fjallaði um ævi Gunnars Thoroddsen. Þar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn stefndi á síðustu öld að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum í höfuðborginni með fleiri en tíu í starfsliði og fylgdist með skoðunum fólks. Hringbraut birtir hér valda kafla úr grein Jóhanns Haukssonar.

Sjálfstæðismenn urðu að breyta kosningamaskínunni

Gunnar Thoroddsen var einn helsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins upp úr miðri síðustu öld og var borgarstjóri í 12 ár, frá 1947 til 1959.  Með nokkrum stuðningsmönnum innan Sjálfstæðisflokksins myndaði hann ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Alþýðubandalaginu árið 1980 og sat sem forsætisráðherra til ársins 1983. Hann lést aðeins örfáum mánuðum síðar sama ár úr hvítblæði.

Í bók Guðna um stjórnmálaforingjann segir frá undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna árið 1958. Fyrir þær kosningar hafði ríkisstjórn Hermanns Jónassonar beitt sér fyrir breytingum á kosningalögum. Breytingarnar fólu meðal annars í sér að fulltrúar stjórnmálaflokkanna gátu ekki lengur fylgst með því á kjörstað hverjir hefðu neytt kosningaréttar. Sjálfstæðismenn urðu að breyta „kosningamaskínu“ sinni með hliðsjón af því undir styrkri stjórn Baldvins Tryggvasonar og Birgis Kjaran.

Á blaðsíðu 260 í bókinni segir:

„Flokksvélin mikla var í meginatriðum óbreytt: Reykjavík var skipt í 120 umdæmi og voru að jafnaði 5–10 fulltrúar í hverju þeirra (samtals 654 snemma árs 1957). Þeir skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll, höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu. Svo kappsamir voru þeir Baldvin og Birgir að þeir þekktu fulltrúana nær alla með nafni og mundu jafnvel símanúmer þeirra. Á vinnustöðum kom öflugt trúnaðarmannakerfi einnig að gagni. Þar fylgdust sjálfstæðismenn með spjalli félaganna um daginn og veginn og komu sjónarmiðum þeirra í stjórnmálum á framfæri í Valhöll. Stefndi flokkurinn að því að hafa trúnaðarmenn í öllum fyrirtækjum með fleiri en tíu í starfsliði og skyldi sérhver þeirra vera „trúverðugur og dugandi maður“ (árið 1957 átti Sjálfstæðisflokkurinn 392 skráða trúnaðarmenn á vinnustöðum).“

Valdakerfið og fórnarlömbin

Frásögnin um valdakerfi Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma virðist koma heim og saman við frásögn Einars Olgeirssonar, eins helsta leiðtoga íslenskra sósíalista á síðustu öld.

Í viðtalsbók Jóns Guðnasonar frá áttunda áratug síðustu aldar gefur Einar eftirfarandi lýsingu á pólitísku eftirliti með skoðunum vinstrimanna og skoðanakúgun sem tengdist NATO og veru Bandaríkjahers í landinu:

„Hernámssinnar, sem titluðu sig lýðræðissinna, veigruðu sér hvergi við að beita persónunjósnum, atvinnuofsóknum og beinni og óbeinni skoðanakúgun. Fátt eitt af þessum ófögru athöfnum þeirra hefur verið skrásett, enda hafa aðeins fáeinir, sem urðu fyrir barðinu á þessum ófögnuði, sagt frá reynslu sinni opinberlega. Þögnin um þessa óhæfu stafar af því meðal annars að menn hafa óttast reiði yfirvalda og ekki viljað láta koma sér algerlega út úr húsi.“

Nýjast