Upptakan dæmd ólögmæt en Bára ekki sektuð – Þarf að eyða upptökunni

Upptakan dæmd ólögmæt en Bára ekki sektuð – Þarf að eyða upptökunni

Stjórn Persónuverndar hefur komist að þeirri niðurstöðu að upptaka Báru Halldórsdóttur á samræðum sex þingmanna Miðflokksins á Klaustur bar í nóvember síðastliðnum hafi brotið gegn persónuverndarlögum. Báru er ekki gert að greiða sekt en þarf að eyða upptökunum.

RÚV hefur úrskurð Persónuverndar undir höndum og greinir frá því að stjórnin hafi komist að þeirri niðurstöðu að Bára væri ábyrgðaraðili að vinnslu þess efnis sem hún tók upp á Klaustur bar. Stjórn Persónuverndar féllst ekki á kröfu hennar um frávísun á grundvelli þess að um væri að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem hefði farið fram í tengslum við lögbundin verkefni Alþingis.

Telur Persónuvernd að um rafræna vöktun hafi verið að ræða af hálfu Báru þegar hún tók upp samtal þingmannanna sex. Þar með hafi hún brotið í bága við ákvæði reglugerðar Evrópusambandsins um vinnslu persónuupplýsinga.

Greiðir ekki sekt

Í úrskurðinum segir jafnframt að Bára hafi talið ummæli þingmannanna hafa þýðingu í ljósi stöðu þeirra, samræðurnar hafi orðið tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi kjörinna fulltrúa og að ekkert bendi til samverknaðar í málinu.

Af þessum sökum er það mat stjórnar Persónuverndar að Bára þurfi ekki að greiða sekt í málinu. Hún þurfi þó að eyða upptökunni og staðfesting þess efnis skuli berast Persónuvernd eigi síðar en 5. júní.

Nýjast