Um hvað sömdu Trump og Kim?

Sögulegur leiðtogafundur Bandaríkjanna og Norður Kóreu

Um hvað sömdu Trump og Kim?

Þó fundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jung-un leiðtoga Norður Kóreu í Singapúr í nótt hafi verið sögulegur er sameiginleg yfirlýsing þeirra eftir fundinn meira viljayfirlýsing um fögur fyrirheit heldur en naglfast samkomulag.

Ríkin heita því að vinna saman að „friði og farsæld.“

Trump heitir því að tryggja öryggi Norður-Kóreu og Kim ítrekaði skuldbindingu sína um að vinna að „algerri afkjarnavopnun“ Kóreuskagans. Ríkin tvö staðfesta að þau ætli að vinna saman að varanlegum friði og viðræðum verður haldið áfram. Trump fullyrti að afvopnunin muni hefjast „mjög fljótlega“ en ekkert í yfirlýsingunni tiltekur hvaða skref verði stigin til þess.

Samkomulag er um ráðstöfun og heimflutning jarðneskra leifa hermanna ríkjanna úr Kóreustríðinu en ekkert kemur fram um mögulega friðarsamninga, tæknilega ríkir því enn stríð á milli Kóreuríkjanna.

Sérfræðingar í málefnum ríkjanna segja yfirlýsinguna innihaldsrýra, jafnvel þynnri en búist var við, segir Robert E. Kelly, prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í málefnum Kóreuskaga við Pusan háskóla.

Kínversk stjórnvöld segja leiðtogafundinn sögulegan. Það að leiðtogarnir geti sest niður og rætt málin sem jafningjar skapi nýja sögu.

Trump sagði sjálfur að viðræðurnar við Kim hefðu verið „betri en nokkur hefði getað ímyndað sér.“

Þetta var í fyrsta skipti sem leiðtogar Bandaríkjanna og Norður Kóreu hittast.

Sean Hannity, þáttastjórnandi á Fox sjónvarpsstöðinni, sem átti viðtal við Trump eftir fundinn sem sýnt verður í kvöld, segir fundi þeirra Trumps og Kim jafn sögulegan og Reykjavíkurfund Reagans og Gorbachevs 1986.

Nýjast