Tveir stjórnarflokkar reka lestina af þeim sem kæmu mönnum á þing.

Ný Gallup-könnun er enn einn áfellisdómurinn yfir formönnum ríkisstjórnarflokkanna sem allir halda áfram að tapa fylgi. Stjórnin er löngu fallin samkvæmt öllum könnunum.

Ljóst er að traust kjósenda til formanna allra þriggja stjórnarflokkanna fellur áfram. Ekki sér fyrir endann á því.

Þjóðarpúls Gallups sýnir nú eftirfarandi fylgi þeirra sjö flokka sem kæmu mönnum á þing ef kosið yrði nú:

1. Sjálfstæðisflokkur 21.9%
2. Samfylking 13.7%
3. Píratar 12.7%
4. Viðreisn 12.2%
5. Miðflokkur 12.1%
6. Vinstri græn 12.0%
7. Framsóknarflokkur 8.5%

Sitthvað er merkilegt við þessar niðurstöður:

1. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er komið niður í 42% og hefur ekki verið lægra.
2. VG var næst stæsti flokkurinn í síðustu kosningum með 17% en dettur niður í 12% og er kominn í sjötta sæti.
3. Framsókn er nú minnsti flokkurinn sem næði fulltrúum á þing.
4. Miðflokkur hefur náð kjörfylgi þrátt fyrir Klausturhneykslið.
5. Viðreisn nærri tvöfaldar fylgi sitt frá kosningum, er komin í fjórða sæti og fer úr fjórum þingmönnum í átta.
6. Samfylking og Píratar bæta við sig fylgi.

Allir formenn stjórnarflokkanna eru í vanda staddir. Bjarni Benediktsson er að festast með flokk sinn kringum 20% en áður naut flokkurinn stuðnings 35-40% kjósenda. Bjarni hafnar orðrómi um að hann ætli að hætta formennsku innan árs. Því fagna andstæðingar flokksins og vona að hann haldi áfram með flokkinn niður á við.

Katrín Jakobsdóttir ræður alls ekki við hlutverk sitt. Grasrót VG er ill út í hana og vill hana í burtu ásamt þessu stjórnarsamstarfi. En það er enginn til að taka við flokknum!

Framsóknarmenn eru orðnir mjög þreyttir á Sigurði Inga formanni. Sagt er að Þórólfur kaupfélagsstjóri vilji nú að hann víki fyrir Lilju Alfreðsdóttur sem mun hafa heimsótt Sauðárkrók fyrir skömmu. Fór í kjölfarið að tala illa um evruna. Vafalaust er hafinn undirbúningur að valdatöku hennar í Framsókn.

Vandi Lilju er hins vegar sá að hún kæmist ekki á þing fyrir kjördæmi sitt, Reykjavík, miðað við nýjustu skoðanakannanir.
Það er frekar vandræðalegt!