Tveir menn vistaðir í fangageymslu lögreglunnar - veittust að þremur aðilum og rændu farsímum og öðru

Nóg var um að vera hjá lögreglunni í gærkvöldi og í nótt en mörg innbrot voru tilkynnt á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur tilkynnti um innbrot rétt eftir miðnætti þar sem gluggi var brotinn og farið var inn. Enn er ekki vitað hverju var stolið.

Þá var einnig tilkynnt um innbrot tæplega hálf fjögur í nótt á heimili í miðbænum og sá öryggisvörður tvo menn hlaupa af vettvangi en ekki er vitað hverju var stolið.

Um sjö leitið í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað í Garðabænum. Þar hafði verið farið inn um glugga og verðmætum stolið.

Frá tæplega níu í gærkvöldi og til rúmlega ellefu var tilkynnt um þrjá þjófnaði í Breiðholtinu og Árbæ. Unglingur hafði leyft mönnum að hringja úr síma sínum sem hlupu á brott með símann. Rúmum klukkutíma síðar var tilkynnt um tvo menn sem veist höfðu að manni á göngustíg og krafið hann um úlpu, peninga og síma. Maðurinn náði að komast undan án þess að afhenda eigur sínar. Mennirnir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit en voru síðar handteknir skömmu síðar í öðru máli er tilkynnt var um að þeir hefði rænt síma og fleiru af 13 ára gömlum dreng í Árbænum. Þeir voru vistaðir fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglunnar og eru grunaðir um aðild að þjófnuðunum í Breiðholti.

Þá var maður handtekin í hverfi 108 en ítrekuð afskipti voru höfð af manninum um kvöldið þar sem hann var að fara inn í hús eða hótel að leggjast til svefns. Var maðurinn vistaður í fangageymslu lögreglunnar sökum ástands.

Um tvö leitið í nótt var kona í annarlegu ástandi handtekin í hverfi 105 eftir að hafa ruðst inn í íbúð hjá ókunnugum. Var hún vistuð í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

Klukkan rétt rúmlega níu í gærkvöldi var svo tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut í Garðabænum. Ökumaðurinn missti annað framdekkið undan bifreið sinni en hann hafði verið að láta setja nagladekkin undir bílinn. Bifreiðin var flutt með dráttarbifreið aftur á dekkjaverkstæðið og ökumaðurinn aðstoðaður heim.

Þá voru tvær bifreiðar stöðvaðar í gærkvöldi og ökumenn þeirra grunaðir um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum fíkniefna.