Tveir af þremur segja sig úr siðanefnd

Tveir af þremur meðlimum sem voru skipaðir í siðanefnd Alþingis hafa óskað eftir að hætta í nefndinni og munu því ekki fjalla um Klaustursmálið þegar það kemur inn á borð nefndarinnar. Þetta eru þau Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild HÍ, og Salvör Nordal, umboðsmaður barna og áður forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ. RÚV.is greinir frá.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, formaður nefndarinnar, mun sitja áfram í nefndinni. Margrét Vala Kristjánsdóttir, varamaður Hafsteins Þórs, mun taka sæti hans. Ákvörðun Hafsteins Þórs er algjörlega óháð Klaustursmálinu að hans sögn og Salvör óskaði eftir því að hætta í nefndinni vegna anna í embætti umboðsmanns barna. Gert er ráð fyrir að forsætisnefnd afgreiði tillögu um staðgengil Salvarar á fundi á morgun.