Uppskrift: Truflað góðar vatnsdeigsbollur með guðdómlegum fyllingum sem enginn stenst að hætti Berglindar Hreiðars

Framundan er bolludagurinn hinn sívinsæli og það má með sanni segja að Íslendingar kunni vel að meta ljúffengar og saðsamar bollur.  Á mörgum heimilum eru bollurnar bakaðar og fylltar að hjartans lyst og gleðja bæði munn og auga.  Í þættinum Fasteignir og Heimili heimsótti Sjöfn Þórðar, Berglindi Hreiðarsdóttur köku- og matarbloggara heim í eldhúsið.  Sjöfn fékk Berglindi til að útbúa nokkrar fyllingar í bollur og sýna helstu leynitrixin þegar kemur að því að fylla bollurnar hinum ýmsum sælkerafyllingum.  Einnig lumar Berglind á góðum ráðum þegar kemur að því að baka vatnsdeigsbollur og laga ljúffengt glassúrskrem til toppa bollurnar með.  Berglindi er margt til lista lagt og listrænir hæfileikar hennar skína í gegn þegar kemur að því að baka og skreyta kökur sem og bollur. Berglind er óhrædd að prófa sig áfram með nýjum rjómafyllingum í bollurnar sem trylla bragðlaukana. 

Kökurnar hennar Berglindar eru ávallt stórglæsilega skreyttar og gleðja ávallt gestsaugað líkt og munn og maga.  Hið sama má segja um bollurnar hennar sem skörtuðu sínu fegursta, þvílík listaverk og ómótstæðilega góðar, þessar stenst enginn.  „Mér finnst eitt alltaf þurfa að vera, svona mjúkur glassúr, súkkulaðiglassúr ofan á bollurnar,“ segir Berglind og er með skothelda uppskrift af súkkulaðiglassúr til að toppa bollurnar með.  Hér fyrir neðan má sjá uppskriftirnar hennar Berglindar sem hún notaðist við í þættinum og jafnframt má sjá þáttinn í heild sinni hér:  https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/thaettir/fasteignir-og-heimili/fasteignir-og-heimili-17-februar-2020

Verið ykkur að góðu og gleðilegan bolludag.

Oreofylltar vatnsdeigsbollur að hætti Berglindar

Vatnsdeigsbollur

  • 180 g smjör
  • 360 ml vatn
  • 200 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • ¼ tsk. salt
  • 4 egg (um 160 g)
  1. Hitið ofninn 180°C.
  2. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og geymið.
  3. Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit og takið þá af hellunni.
  4. Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleif þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
  5. Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni.
  6. Pískið eggin saman í skál og setjið þau saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli.
  7. Setjið bökunarpappír á ofnplötur og hver bolla má vera um 2 matskeiðar af deigi (ein vel kúpt matskeið). Uppskriftin gefur um 15 stk af bollum.
  8. Bakið í 27-30 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi og þá falla þær. Ef þær falla þá má samt alveg fylla þær og borða, þær eru alveg jafn góðar, bara ekki eins fallegar.

Oreofylling

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 8 msk. Oreo Crumbs + meira til skrauts
  1. Vefjið Oreo Crumbs varlega saman við rjómann og sprautið vel af rjóma á hverja bollu.

Glassúr

  • 100 g brætt smjör
  • 210 g flórsykur
  • 3 msk. Cadbury bökunarkakó
  • 3 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. kaffi (uppáhellt)
  1. Allt sett saman í skál og hrært saman með písk/skeið þar til vel blandað.
  2. Best er að fylla bollurnar fyrst og setja svo væna teskeið af glassúr ofan á „lokið“ og dreifa aðeins út og strá Oreo Crumbs yfir áður en glassúrinn tekur sig. Því er gott að setja glassúr á 3-4 í einu og setja svo Oreo Crumbs yfir og halda síðan áfram.

Aðrar mögulegar fyllingar í bollurnar.

Hindberjadraumur

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 100 g saxað hvítt Toblerone
  • 80 g Driscoll‘s hindber (stöppuð með gaffli)
  • 5 msk. kókosmjöl + meira til skrauts
  1. Toblerone, berjum og kókosmjöli vafið saman við rjómann og síðan stráð smá kókosmjöli á glassúrinn þegar búið er að setja hann á.

Súkkulaðisæla

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 2 msk. Cadbury bökunarkakó
  • 100 g saxað súkkulaði Toblerone
  • Driscoll‘s rifsber til skrauts
  1. Vefjið bökunarkakói varlega saman við rjómann þar til hann er ljósbrúnn.
  2. Blandið þá um 2/3 af söxuðu Toblerone saman við rjómann og sprautið á milli.
  3. Skreytið með söxuðu Toblerone og rifsberjum.

Jarðaberjafylling

  • 500 ml þeyttur rjómi
  • 10-15 stk Driscoll‘s jarðaber (stöppuð vel með gaffli/sett í blandara) + fleiri til skrauts
  1. Vefjið stöppuðum jarðaberjum varlega saman við rjómann og sprautið á milli.
  2. Skreytið með því að setja ¼ af jarðaberi á hverja bollu þegar glassúrinn er kominn á.

Njótið vel.