Treystir á óánægju innan Sjálfstæðisflokksins

Treystir á óánægju innan Sjálfstæðisflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins treystir á óánægju innan Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að þriðja orkupakkanum sem tekinn verður til umfjöllunar í þinginu um mánaðamótin.

Sigmundur Davíð var gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi í morgun. Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé líklegastur af stjórnarflokkunum til að skipta um skoðun.

„En mér sýnist þetta liggja þannig að ef það eigi að takast að hindra innleiðingu þessa orkupakka þá verði að þar að koma eitthvað frumkvæði frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins held ég kannski sérstaklega, maður hefur helst verið að líta til þeirra því baklandið hjá þeim hefur verið öflugt í því að reyna að fá þingflokkinn sinn til að fylgja stefnu flokksins. Ég bind enn þá vonir við að mönnum geti orðið eitthvað ágengt í því þó ekki væri til annars en að málið fengi einhverja aðeins meiri bið, helst að senda beint aftur til sameiginlegu EES nefndarinnar.“

Þá telur Sigmundur að auðvelt verði að snúa hinum tveimur stjórnarflokkunum takist að telja Sjálfstæðismönnum hughvarf. Sigmundur tjáði sig einnig um fund Sjálfstæðisflokksins í Valhöll 10. ágúst þar sem rætt var um þriðja orkupakkann. Sigmundur segir:

„Það kom mér svolítið á óvart hvernig hann  talaði á þeim fundi. Það fyrsta var að boða til þessa stóra fundar í húsnæði flokksins. Þá hefði maður haldið að hann ætlaði sér að nálgast þetta á nýjan hátt en í staðinn virtist leiðin áfram eiga að vera sú að setja undir sig hausinn, og gera ráð fyrir því að allir flokksmennirnir í Sjálfstæðisflokknum og aðrir muni verða búnir að gleyma þessu eftir tvær vikur.“

Nýjast