Tré rifnuðu upp með rótum og járnplötur fjúka um bæinn - ekkert ferðaveður í dag

Nóg var um að vera hjá viðbragðsaðilum á suðurlandi í gærkvöldi og nótt vegna óveðursins sem gengið hefur yfir landið.

Í hádeginu var aðgerðarstjórn á Suðurlandi virkjuð og undirbúningur viðbragðsaðila hafin.

Lögreglan á Suðurlandi greindi frá því að klukkan 03:15 í nótt höfðu þegar borist yfir 150 beiðnir um ýmiskonar aðstoð en þá höfðu meðal annars átta tré rifnað upp með rótum eða brotnað, 1 hjólhýsi fokið á hliðina, þakplötur og þakkantar á 12 húsum höfðu losnað og/eða fokið af, tvær beiðnir bárust vegna gróðurhúsa sem voru að fjúka og aðstoða þurfti þrjá ferðamenn sem höfðu drepið á bíl sínum og voru orðnir kaldir og hraktir. Þess má geta að í uppsveitum Árnessýslu var svo blint að ekki sást fram fyrir vélarhlífar á bílum.

Þá má búast við því að Hellisheiði, þrengsli, Lyngdalsheiði, Þingvallavegur og Biskupstungnabraut opni ekki fyrr en líða tekur að hádegi. Þeir sem eru að huga að ferðalögum er þó bent á að fylgjast með upplýsingum frá Vegagerðinni á heimasíðu þeirra.

Undir Ingólfsfjalli fóru vindhviður upp í 50 m/s og fuku tveir bílar út af veginum. Engin slys urðu á fólki en ökumenn áttu í þó nokkrum vandræðum við keyrslu á þessum kafla.

Lögreglan á Akureyri hefur varað fólk við því að vera á ferðinni í dag en miklar fyrirspurnir hafa borist á borð um færðina. Segir lögreglan aðalgötur innanbæjar á Akureyri vega jeppafærar en að margar íbúðargötur séu hreinlega ófærar. Ekkert fólksbílafæri sé á Akureyri um þessar mundir.

Þá hefur lögreglan á Norðurlandi eystra beðið íbúa Ólafsfjarðar um að vera ekki á ferðinni nema að brýna nauðsyn beri til. Ástæðan er sérstaklega vegna þess að járnplötur og brak úr húsum eru á við og dreif ásamt því að brjót hefur gengið á land. Biður lögreglan fólk í kringum Sjávargötu og Námuveg um að fara sérstaklega varlega en vegna veðurofsans hefur ekki verið hægt að koma við neinum aðgerðum til þess að hindra frekara fok.