Í gær veittuð þið ungri stúlku annað tækifæri: það sama gerðuð þið fyrir mig fyrir 25 árum

Tomasz Þór Veruson er einn af þeim fjölmörgu sem lenti í snjóflóðinu á Súðavík fyrir 25 árum síðan, snjóflóðinu sem hrifsaði líf 14 manns með sér. Tomasz var aðeins tíu ára gamall þegar snjóflóðið féll og var hann sá síðasti sem fannst í snjónum eftir 24 klukkutíma.

Hann rifjaði upp minninguna á Facebook síðu sinni í gær og segir hann að í ljósi atburða síðastliðna daga hafi hugurinn leitað vestur.

„Þeir komu flatt upp á mann og þegar fréttir fóru að berast frá Flateyri hugsaði maður bara “nei…” Það er erfitt að átta sig á þessum tíma sem er liðinn þar sem 16. janúar er og verður alltaf eins, dálítið dofinn. En tíminn er langur,“ segir Tomasz.

\"\"

Tomasz grófst í snjó í 24 klukkustundir eftir snjóflóðið í Súðavík fyrir 25 árum.

Hann segir tímann fljúga áfram og segist vera þakklátur.

„Ég er þakklátur fyrir að ekki fór verr í gær, ég er þakklátur fyrir þær ótrúlegu tækni- og þekkingarframfarir sem hafa átt sér stað hér á landi sem snúa að flóðum, varnargörðum o.fl., ég er þakklátur fyrir varðskipið Þór og þyrlu Landhelgisgæslunnar og þær mögnuðu áhafnir sem standa þar vaktina og að lokum er ég þakklátur fyrir þær ótrúlegu björgunarsveitir sem við eigum…í gær veittuð þið ungri stúlku annað tækifæri, það sama og þið gerðuð fyrir mig nánast upp á dag fyrir 25 árum síðan.“

Í samtali við mbl.is segir Tomasz það ótrúlegt að hugsa til þess að snjóflóðin á Flateyri og Súgandafirði hafi fallið á svipuðum stað og fyrir 25 árum síðan. Á þeim tíma bjó Tomasz með móður sinni og tveimur mæðgum í húsi í Súðavík og komust aðeins hann og móðir hans lífs af.

„Ég var ekki með meðvit­und all­an tím­ann en mest­megn­is af tím­an­um og þaðan koma minn­ing­arn­ar. Þetta sem gerðist í gær var ákveðinn skell­ur og maður gat að vissu leyti sett sig í aðstæðurn­ar,“ segir hann.

Hafði áhrif á allt samfélagið

Tomasz segir atburðinn í fyrradag hafa ýft upp gömul sár og viðurkennir að 16. janúar sé sérstakur bæði hjá sér sjálfum og öðrum.

„Þetta hafði svo mik­il áhrif, ekki bara á mig held­ur allt sam­fé­lagið,“ segir hann.

Í kjölfar fréttaflutnings um Ölmu Sóley Ericsdóttur Wolf sem grófst undir snjó í snjóflóðinu á Flateyri í fyrradag segist Tomasz geta tengt við mörg af þeim atriðum sem hún hefur komið inn á.

„Í henn­ar til­felli er magnað að hugsa til þess að þetta hafi farið eins vel og það fór. Ég las í frétt­um í dag að það væri verið að tala um krafta­verk og ég er hundrað pró­sent sam­mála því,“ segir Tomasz.