Tíminn við ístréð

Veturkonungur hefur svo sannarlega minnt á sig og enn og aftur erum við minnt á krafta náttúrunnar. Eldur og ís í bland við vinda hafsins. Þessa orku þekkjum við hér á Fróni betur en margur annar.

Ég ferðast mikið um landið og hef því kynnst þessum kröftum vel. Ég hef verið veðurtepptur víða, keyrt inn í snjóflóð og farið í gegnum blindan öskumökk frá eldgosi. Á þessum ferðalögum hef ég líka komið að umferðarslysum, minniháttar og alvarlegum.

Þegar ég byrjaði keyrsluna landshorna á milli, keyrði ég mestmegnis suðurströndina en nú síðustu ár hef ég mest verið að keyra austur/norðurlandið. Á þeim tíma sem ég keyrði suðurlandið þá fjölgaði erlendum gestum mikið. Á ótrúlega stuttum tíma risu hin ýmsu hótel og gistiheimili. Rólegustu bæir líkjast nú orðið stórborgum á háanna tíma.

Fyrst um sinn var keyrslan neikvæð mér leiddist tíminn í bílnum sem var oftast 5-7 tíma keyrsla í einu. Alltaf lá mér á, alltaf var ég í „vondu“ skapi undir stýri vegna tímans sem ég eyddi í keyrslu og þeirra tafa sem móður náttúra og hinir erlendu gestir ollu.

Smá saman fór ég þó að breyta hugarfarinu. Ég byrjaði á því að nota hljóðbækur og við það róaðist ég. Ég fann það að þessi „dauði“ tími sem fór í keyrsluna varð allt í einu áhugaverður. Ég er búinn að fara í gegnum fjöldann allan af bókumi af öllum toga síðustu ár.

Því oftar sem maður keyrir um landið því betur kynnist maður því. Nánast í hverri ferð finn ég eitthvað spennandi. Ég þekki orðið nánast hvern einasta sveitabæ, hverja lækjarsprænu, og hvern tignarlega tindinn á eftir öðrum sem standa stæltir við fagran fjallagarðinn.

Nú Í vetur upplifði ég einstakt augnablik. Ég var rétt við Jökulsá á Fjöllum í mínus 16 stiga frosti en algjöru logni og engin var umferðin. Þarna stöðvaði ég bílinn og gekk út til þess að upplifa núvitund í algjörri kyrrð þegar ég fann tré sem stóð alveg eitt og yfirgefið. Frostið hafði klætt það í kristal búning. Mér leið eins og ég stæði í málverki sem eftir á að mála og bera mun nafnið „Ístréð“.

Að undanförnu er tíminn farinn að þegja þegar ég er á ferðinni, hann er hættur að minna mig á sekúndur, mínútur og klukkutíma. Það hefur hægt á öllu og ég nýt þess að keyra.

Ferðalagið er orðið jákvætt, hvort sem ég er hlustandi á Hjálmar Hjálmarsson lesa „Maður sem heitir Ove“ eða þá að uppgötva leynda töfra landsins.

\"\"