Þverrandi traust og axarsköft bandaríkjaforseta: þurfa íslendingar að snúa sér annað?

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra, telur að Íslendingar hafi ríka ástæðu til að vera á varðbergi gagnvart Bandarískum stjórnvöldum. Íslendingar hafi einnig fram að þessu litið svo á að Bandaríkjamenn væru góðir bandamenn. Veltir Þorsteinn upp þeirri spurningu hvort það þurfi að endurskoða þessa afstöðu. Þetta kom fram í pistli eftir Þorstein sem birtur var á Hringbraut í gær. Hefur pistillinn vakið mikla athygli. Þar segir Þorsteinn:

„Sú spurning vaknar æ oftar á vesturlöndum hvort treysta megi Bandaríkjunum í sama mæli og áður. Ísland hefur ríka ástæðu til að vera á varðbergi í þessum efnum. Í þjóðaröryggisstefnu Íslands segir afdráttarlaust að  varnarsamningurinn við Bandaríkin sé lykilatriði við varðveislu fullveldisins.“

Bendir Þorsteinn á að samningur við erlenda þjóð um hervarnir verði að byggjast á gagnkvæmu og óskoruðu trausti.  

„Á sínum tíma hótaði Ísland að rifta varnarsamningnum ef Bandaríkin féllust ekki á að hafa hér tiltekinn fjölda orrustuflugvéla. Eftir nokkurra ára þóf svöruðu Bandaríkin með því að fara fyrirvaralaust með allan varnarviðbúnað frá Keflavíkurflugvelli,“ segir Þorsteinn og bætir við:

„Ísland ákvað að standa ekki við hótunina um að rifta varnarsamningnum. Það var skynsamlegt. Satt best að segja var hótunin alltaf dæmi um lélegt stöðumat.“

Þá segir Þorsteinn að á sama tíma og ríkisstjórn Íslands fagni því að Bandaríkin vilji koma til baka og bjóða um leið fríverslunarsamning, hafi stjórnvöld hér á landi ekki sett sér nein sjálfstæð markmið í ljósi þessara nýju aðstæðna. Er það umhugsunarefni að mati Þorsteins. Hann tiltekur svo nýjustu vendingar í utanríkismálum Bandaríkjanna sem fyrir nokkrum dögum stungu Kúrda í bakið þegar þeir leyfðu Tyrkjum að fara með her gegn þeim. Sólarhring síðar birti Bandaríkjaforseti afar umdeild skilaboð á samfélagsmiðlum þar sem hann hótaði að leggja efnahag Tyrklands í rúst ef þeir gengju of hart gegn Kúrdum.   

„Allar voru þessar yfirlýsingar gefnar með tilvísun í mikla og óviðjafnanlega visku valdhafanna,“ segir Þorsteinn og rifjar svo upp aðrar ákvarðanir sem hafa verið harðlega gagnrýndar víða um heim, til dæmis afskipti af réttarkerfi bæði í Svíþjóð og Úkraínu. Hver man ekki eftir þegar Donald Trump sagðist vilja kaupa Grænland. Þá segir Þorsteinn Bandaríkin vinna gegn markmiðum annarra ríkja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu í loftslagsmálum. Þá sundra þau samstarfi þjóða í Evrópu í efnahags- og viðskiptamálum. En þetta samstarf hefur reynst Íslandi happadrjúgt, segir Þorsteinn og vitnar í nýja skýrslu um árangurinn af aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn.

„Aðildin hefur verið ein af helstu stoðum efnahagslegs fullveldis landsins,“ segir Þorsteinn.

Þverrandi traust

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir upplýsingum um samskipti ráðherra og embættismanna við ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þá flutti formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingsályktunartillögu í vor um fræðilega skoðun á því hvernig Ísland getur best tryggt pólitíska og efnahagslega stöðu sína á alþjóðavettvangi í ljósi breyttra aðstæðna. Ljóst er, líkt og Þorsteinn bendir á, þverrandi traust hjá almenningi og stjórnmálamönnum í garð Bandaríkjanna.

Þorsteinn bætir við að lokum:

„Fram til þessa hefur ríkisstjórnin hins vegar talað um samskiptin við Bandaríkin eins og ekkert hafi breyst og engar spurningar séu uppi um trúverðugleika þeirra, engin álitamál um gagnkvæma hagsmuni og engar efasemdir um sameiginleg gildi.“  

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.