Bæjarstjóri skiptir um lið: „Mér fannst þetta glatað“

Bæjarstjóri skiptir um lið: „Mér fannst þetta glatað“

„Þegar ég var púki horfði ég á alveg ótrúlega marga fótboltaleiki í sjónvarpi. Eiginlega bara alla leiki sem hægt var að sjá. Í dag geri ég meira af því að lesa um fótbolta. Hef ekki alveg sama tíma í þetta.“

Þetta segir Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri á Ísafirði í pistli sem hann kallar „Þroskasögu“. Guðmundur hélt alltaf með Manchester United. Hann átti allar treyjurnar, safnaði veggspjöldum úr enska boltanum og var virkur í United klúbbnum. Guðmundur segir:

„En svo fékk ég bara leið á þessu. Fannst þetta orðið að einhverju tilgerðarlegu glimmersporti þar sem allt hverfist um að dýrka einstaklinga. Enginn fókus á liðið, heildina, fegurðina, samvinnuna. Hinir sönnu töfrar íþróttarinnar orðnir eins og eitthvað aukaatriði. Ég varð voðalega dramatískur yfir þessu á fullorðinsárum.“

Kornið sem fyllti mælinn var þegar hinn portúgalski þjálfari liðsins, Jose Mourinho, fékk þá Zlatan Ibrahimovic og Paul Pogba til liðsins árið 2016, sem Guðmundur segir vera tvo sjálfhverfustu leikmenn samtímans.

„Tveir karakterar, sem hafa sérstakt lag á að snúa hópíþrótt upp í eitthvað undarlegt egótripp. Mér fannst þetta glatað og hætti að halda með United. Þetta var árið 2016. En þótt ég væri orðinn fúll á móti þá fannst mér ég samt verða að eiga lið. Einhverja sem ég gæti kallað „mína menn“ og verið með í umræðunni.“

Guðmundur fannst hann verða að eiga lið til að styðja. Hann fór því að skoða skjaldarmerki liða í neðri deildum Englands, þar sem ástríðan er meiri og glamúrinn minni.  

„Og viti menn, ég rakst fljótlega á lið sem er með uglu í skjaldarmerkinu og heitir eftir vikudegi. Mínir menn! Í dag held ég með Sheffield Wednesday. Það merkilega við þetta allt saman er að ég er aftur farinn að hafa gaman af enska boltanum. Sko, í neðri deildunum. Gaumgæfi úrslit, stúdera liðsuppstillingar og horfi stundum á blaðamannafundi ef ég hef tíma.“

Hver er svo lærdómurinn af þessu öllu saman. Guðmundur segir frelsandi að skipta um lið. Það sé allra meina bót. Hann bætir við að lokum:

„Ég ímynda mér að það geti verið álíka heilsusamlegt að skipta um skoðun.“

Nýjast