„Þótt ég syrgi Gísla bróður minn óskaplega mikið er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys“

„Þótt ég syrgi Gísla bróður minn óskaplega mikið er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys“

Heiða Þórðardóttir, systir Gísla Þórs Þórarinssonar og Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, segist í ítarlegu viðtali við Mannlíf í dag trúa því að um óviljaverk hafi verið að ræða þegar Gunnar skaut Gísla til bana þann 27. apríl síðastliðinn í Mehamn í Noregi. Því geti hún ekki hatast við Gunnar.

„Ég get ekki einu sinni verið reið við hann í þessu tilfelli, hann þarf að lifa með því alla sína ævi að hafa drepið bróður sinn og besta vin. Þeir höfðu búið saman, unnið saman og áttu mjög vel saman þegar Gunnar var í toppstandi, sem hann var miklu oftar en í neyslu. Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys,“ segir Heiða.

Heiða Þórðardóttir

Í viðtalinu fer hún yfir erfiða ævi Gunnars, en hann hefur löngum glímt við fíknivandamál og geðsjúkdóma, auk þess að hafa verið dæmdur margsinnis fyrir glæpi. Á meðal glæpa sem Gunnar hefur verið dæmdur fyrir eru nauðgun, líkamsárás og mannrán. Heiða segir það ekki afsökun en að það sé skýring að  þegar hann hafi framið þá glæpi sem hann hefur verið dæmdur fyrir hafi hann verið í neyslu.

Hann hafi til að mynda verið nýfallinn þegar hann hafi orðið Gísla að bana. Þá var hann í miklu tilfinningalegu uppnámi þar sem Gísli hafði tekið saman við barnsmóður Gunnars. Þegar Gunnar og barnsmóðir hans skildu að borði og sæng fyrir um tveimur árum fór Gunnar í meðferð og hafði staðið í þeirri trú að eftir að hann væri búinn að vinna í sínum málum myndu þau taka saman að nýju.

Þegar Gunnari var tjáð að Gísli og barnsmóðir hefðu tekið saman virðist sem allt hafi hrunið hjá Gunnari og hótaði hann að drepa Gísla. Í slíku uppnámi var Gunnar að hann skráði sig sjálfur inn á geðdeild skömmu áður en harmleikurinn dundi yfir. Heiðu var kunnugt um hótanirnar en segir að hún hefði aldrei trúað því að Gunnar myndi láta verða af þeim, þrátt fyrir ofbeldissögu sína. Trúir hún því enn að það hafi ekki verið ætlun Gunnars að drepa Gísla.

„Þessa fjóra daga sem hann var á geðdeild, algjörlega niðurbrotinn, og ég var að reyna að tala hann til, datt mér aldrei í hug að þetta myndi enda svona hræðilega. Eftir að hann kom út af geðdeildinni féll hann og fór heim til Gísla með kunningja sínum og þeim bræðrunum lenti saman sem lauk með því að Gunnar skaut Gísla í lærið, skotið fór í slagæð og honum blæddi út. Löggæslumennirnir sem komu á vettvang voru með bundnar hendur vegna þess að þeir máttu ekki fara inn á undan sjúkrabílnum og því fór sem fór,“ segir Heiða.

Hún segist ekki hafa upplifað viðlíka sorg á sinni ævi, enda voru þau Gísli afar náin. „Ég er bara svo ofboðslega sorgmædd. Ég er búin að missa alla þá sem hafa verið mér kærkomnastir, mömmu, pabba, vini og ömmur en þetta er mesta sorg sem ég hef upplifað. Þegar lögreglan kom til að segja mér frá þessu var mér boðin hjálp sem ég afþakkaði með þeim orðum að ég væri vön þessu en málið er að þetta er það svakalegasta högg sem ég hef fengið. Sorgin var svo mikil að ég fann líkamlegan sársauka. Ég svaf ekki, ég borðaði ekki og ég get svarið að ég man ekkert eftir fyrstu dögunum á eftir.“

Réttarhöldin í Noregi munu hefjast 10. desember næstkomandi og bindur Heiða vonir við að þá komi það sem hún telur hið sanna í ljós, að um óviljaverk og slys hafi verið að ræða.

Ítarlegt viðtal Mannlífs við Heiðu í heild sinni má lesa hér.

Nýjast