Þorvaldur sagði verulegar líkur á hraungosi -„hraðinn er svo gríðarlegur að þú hleypur ekki undan því“

Lýst hefur verið yfir ó­vissu­stigi Al­manna­varna í sam­ráði við lög­reglu­stjórann á Suður­nesjum vegna land­riss vestan við fjallið Þor­björn á Reykja­nesi. undan­farna daga hefur landris og aukin jarð­skjálfta­virkni mælst á Reykja­nesi og telja jarð­vísinda­menn Veður­stofu Ís­lands og Jarð­vísinda­stofnunar HÍ mögu­legt að um sé að ræða kviku­söfnun vestan við Þor­björn, þótt ekki sé úti­lokað að aðrar á­stæður geti verið fyrir þessari virkni.

Víkurfréttir deildu nú fyrr í dag grein frá árinu 2018 þar sem segir að verulegar líkur séu á hraungosi á Reykjanesskaga í framtíðinni. Í raun má búast við því hvenær sem er. Því er mikilvægt að fylgjast vel með. En hvað getur í raun gerst?

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sem fjallaði um jarðvá á Reykjanesi á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum árið 2018. Hafði Þorvaldur unnið að greiningu á Reykjanesi í tvö ár til að mögulegt væri að meta betur áhættu og viðbrögð til framtíðar vegna mögulegra eldgosa. Þorvaldur sagði:

„Gos á Reykjanesi eru yfirleitt sprungugos sem eru fyrst og fremst hraunmyndandi og þar er því hraunflæði mesta áhyggjuefnið en við þau losnar líka mikið af gasi, sérstaklega brennisteini sem getur dreifst víða og haft veruleg áhrif á gæði andrúmslofts. Þekkt sprengigos er t.d. Grænavatn sem er sprengigígur og þá urðu þau í jarðhitakerfinu í Seltúni árið 2011 sem þarf að skoða sérstaklega þar sem um þekktan ferðamannastað er að ræða.“ Þorvaldur bætti við:

„Þá mun gos hafa áhrif á grunnvatnsgeyma og við gætum orðið uppiskroppa með drykkjarvatn á ákveðnum svæðum, það á t.d. líka við um Stór Reykjavíkursvæðið.“

Þorvaldur sagði að langtímaspá gerðu ráð fyrir því að mestar líkur væru á því að gos komi upp á vesturhluta skagans, á Reykjanestá og vestan við Grindavík.

„Sprengigos í sjó geta líka haft veruleg áhrif á má þar nefna öskudreifingu og meiriháttar truflun á öllum flugsamgöngum til og frá landinu,“ sagði Þorvaldur.

Þorvaldur segir að viðbragðstími sé stuttur verði eldgos á svæðinu.

„Grindvíkingar munu í besta falli fá nokkurra klukkustunda fyrirvara, hugsanlega sólarhring séum við heppin. Einfalt hraungos byrjar með látum og getur ferðast nokkra kílómetra á innan við klukkustund og hraðinn er svo gríðarlegur að þú hleypur ekki undan því.“

Hér má lesa umfjöllun Víkurfrétta í heild sinni.