Þingmenn Miðflokks kæra úrskurð til Landsréttar

Þingmenn Miðflokks kæra úrskurð til Landsréttar

Kjarninn / Bára Huld Beck
Kjarninn / Bára Huld Beck

Fjórir þingmenn Miðflokksins hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar. Héraðsdómur hafði hafnað kröfu þingmannanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur vegna fyrirhugaðrar málsóknar þeirra gegn Báru Halldórsdóttur, sem tók upp samtöl þeirra og tveggja þingmanna Flokks fólksins á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Stundin greinir frá.

Þingmenn Miðflokksins, þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir, gera þá kröfu að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi, þar sem þau telji að forsendur dómsins fái ekki staðist.

Í frétt Stundarinnar kemur fram að lögmaður þingmannanna, Reimar Snæfells Pétursson, telji að ásetningur Báru sé einbeittur og trúverðugleiki hennar enginn. Hann telji að Bára hafi farið á Klaustur bar með það fyrirfram gefna markmið að njósna um og taka upp samtöl þingmannanna. Telur Reimar ásamt þingmönnunum fjórum að frásögn Báru af atburðum kvöldsins 20. nóvember á Klaustur bar standist ekki skoðun og vilja þau fá úr því skorið hvort hún hafi verið ein að verki eður ei.

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, annar lögmanna Báru, hafði áður sagt í samtali við Fréttablaðið að þrátt fyrir að héraðsdómur hafi hafnað kröfu þingmannanna um gagnaöflun og vitnaleiðslur væru þau viðbúin því að málinu væri ekki lokið.

Nýjast