„þetta er mjög afhjúpandi“

Freyja Haraldsdóttir segir í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld að þekkt sé í sögunni hvernig fötluðum hafi verið líkt við dýr. Umræðan á Klausturbarnum sé afhjúpandi varðandi viðhorf til fatlaðra. „Þetta eru viðhorfin sem ég er að fást við á einn eða annan hátt alla daga“, segir Freyja.

Freyja er aðjúnkt hjá Menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi varaþingkona Bjartrar framtíðar.
 

Klausturupptökurnar er langar og þar eru margir níddir niður, aðallega konur og Freyja Haraldsdóttir er ein þeirra sem var uppnefnd vegna fötlunar sinnar, það verður ekki komist að annarri niðurstöðu en það hafi verið gert og heyrist á upptökunum líkt eftir sel þegar talað er um Freyju og hún nefnd Freyja eyja þar.

Hún birtir sjálf grein á Kjarnanum  í gær þar sem hún skrifar að enginn þeirra sem var gómaður á Klausturbarnum við að líkja sér við dýr og upp­nefna sig hafi séð að sér. Stuttu áður hafði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hringt í Freyju og sagt að grínið hafi verið misskilið, selahljóðið var þegar stóll var færður úr stað á barnum og uppnefnið komið til vegna veggs á flokksskrifstofu Miðflokksins sem tengdist umbótum á aðgengi fyrir fatlaða.

„Þetta er mjög afhjúpandi um viðhorf til fatlaðs fólks en nú leið rosalega klassískt. Fötluðu fólki hefur frá örófi alda verið líkt við dýr. Fatlað fólk var geymt í útihúsum með dýrum hér áður fyrr og það borðaði með dýrum“, segir Freyja. Um leið sé þessi líking líka mjög sár af því að hún hefur svo mikla sögu og svona líkingar í dag setji fatlaða inn í þá sögu aftur og aftur.

„Ég held að það sé lærdómurinn sem við verðum að draga að þessu. Við getum ekki stimplað þetta sem einhvern einstakan viðburð eins og sumir vilja meina, að þetta sér eitthvað sérstakt“, bætir Freyja við en dregur þó fram að það sé þó nokkuð öðruvísi þegar „... valdamiklir menn detta í það á bar og tali svona á almannafæri, það er mikið dómgreindarleysi“.    

„En þetta eru viðhorfin samt sem ég er að fást við á einn eða annan hátt alla daga. Fötluðu fólki er þó líka mjög brugðið. Það verður bara hrætt, hvað þýðir það fyrir okkur, þetta er í rauninni nokkur staðfesting á því sem okkur grunar að séu viðhorfin en við fáum það kannski ekki alltaf svona skýrt upp á yfirborðið“