Þegar gunnar bragi laug: hlustaðu á upptökurnar, fyrir og eftir – af hverju var sendiherrakapli sleppt?

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra sagði á sínum tíma við Hringbraut að hann hefði ekkert munað frá kvöldinu fræga þann 20. nóvember síðastliðinn er hann sat með öðrum þingmönnum á Klaustur bar þar sem var talað á niðrandi hátt um konur og ýmsa minnihlutahópa. Áður en nokkur frétt birtist um málið hafði þáverandi blaðamaður DV, nú starfandi á Hringbraut samband við Gunnar Braga til að kanna hvort rétt væri að hann hefði skipað Árna Þór Sigurðsson sem sendiherra í Finnlandi til að draga athyglina frá því að hann hefði á sama tíma skipað Geir H. Haarde sem sendiherra í Finnlandi og kaupa þannig þögn Vinstri grænna. Halldór Auðar Svansson fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata segir að sú niðurstaða að þetta hafi ekki ratað inn á borð lögreglu, sé ein merkilegasta niðurstaða Klaustursmálsins.

Gunnar Bragi sagði ítrekað í samtali við DV, áður en nokkur upptaka var birt, að hann myndi eftir kvöldinu örlagaríka en hafði þá ekki heyrt neina af upptökunum. Hann átti svo seinna eftir að halda fram hann hefði fallið í óminni í 36 klukkutíma. Á upptöku sem fylgir þessari frétt, kveðst Gunnar Bragi ítrekað muna eftir kvöldinu á Klaustri sem stangast á við það sem hann sagði í viðtali á Hringbraut síðar og DV benti á. Gunnar Bragi neitaði þá að hafa skipað Árna Þór sendiherra til að draga athyglina frá skipan Geirs og þagga þannig niður í Vinstri grænum.

Hér getur þú hlustað á fyrsta viðtalið sem var tekið. Neðst í fréttinni má heyra upptökuna sjálfa þar sem sendiherrakappallinn er ræddur.

Þáverandi blaðamaður DV, nú starfandi á Hringbraut, rakti samræður þingmannanna: Sigmundur Davíð segir við Ólaf Ísleifsson, þú verður þingflokksformaður. Við erum að fara að redda þér inn, ég er ekki að grínast. Ég veit að ég er búinn að drekka töluvert af bjór en ég er til í gera þetta á morgun. Ólafur Ísleifsson segir: Ég þarf meiri bjór. Sigmundur Davíð: Sko Beggi, ef Gunnar Bragi er til í þetta, mér er alvara með það Gunnar Bragi þá erum við on.

Gunnar Bragi: Ég er svo aldeilis …

Blaðamaður heldur áfram: Sigmundur segir, tíu fingur til Guðs ef Gunnar Bragi er til í þetta þá …

Gunnar Bragi: Já, ég man eftir þessu.

Blaðamaður: Þú manst eftir þessu?

Gunnar Bragi: Já, við vorum að grínast með þetta maður.

Síðar á upptökunni segir blaðamaður: Þið hljótið að geta útskýrt þetta betur að þetta hafi verið einhver brandari sem enginn hló að.

Gunnar Bragi: Við vorum bara að skemmta okkur, að tala um hitt og þetta.

Seinna á upptökunni:

Blaðamaður: Ólafur Ísleifsson kannast ekki við þetta boð.

Gunnar Bragi: Þetta er ekki boð heldur …

Blaðamaður: Hann kannast aldrei við að þessi orð verið sögð við sig.

Gunnar Bragi: Það getur vel verið að hann muni það bara ekki. Ég man bara að við vorum að gera grín að þessu?

Á Vísi var Gunnar Bragi inntur eftir viðbrögðum og sagðist hann hafa logið á upptökunni. Þrátt fyrir þá staðhæfingu má heyra Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins staðfesta frásögn Gunnars með því að segja að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi fylgt málinu eftir og að Gunnar Bragi ætti inni hjá Sjálfstæðismönnum að því er fram kemur á Stundinni.

Halldór Auðar Svansson, fyrrverandi borgarfulltrúi, rifjar síðan upp á samskiptamiðlum viðtal við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra. Þann 2. desember sagði Sigríður Björk í samtali við RÚV að embættinu hefði borist ábendingar vegna málsins en þar sem forsætisnefnd hefði látið hjá líðast að kvarta undan því sem kom fram á Klausturbar hefði málið ekki verið tekið til skoðunar hjá lögreglunni. Eins og kom fram á bæði DV og Stundinni sagði Gunnar Bragi á Klausturbar:

„En Geir nefnilega sagði við mig eitt dálítið sérstakt, hann sagði: „Ég var brjálaður við þig Gunni þegar þú varst að gera Árna Þór að sendiherra en svo fattaði ég þetta allt í einu, að athyglin fór öll á Árna og ég var mjög glaður.“

Og það var ekki nóg með það að vinstri græna liðið var brjálað, því Árni er auðvitað ekkert annað en senditík Steingríms. En plottið mitt var að Geir yrði í skjólinu hjá Árna og það virkaði ekki bara 100 prósent heldur 170 prósent því að Árni fékk allan skítinn. Svo sagði Geir við mig löngu seinna: „Þakka þér fyrir. Það var enginn sem gagnrýndi mig.“ Og það var málið, það gagnrýndi þetta nánast enginn. Og það er bara vegna þess að ég lét Árna taka allan slaginn. 

Þegar ég á fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu og ég segi við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra,“ og þá segi ég við Bjarna: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“ Og það er ekki vegna þess að ég hafi verið að hugsa um að skipta um flokk. […]

Ég var ekki kominn út þegar Þórólfur (Gíslason) hringir og spyr: „Ætlar þú að verða sendiherra?“ […] Ég var ekki kominn út úr ráðuneytinu.“ 

Sigmundur Davíð lýsir svo málinu eins og það horfir við honum. Hann talar lægra en Gunnar Bragi og erfiðara er að greina hvað hann segir. 

„Út frá þessu, af því að ég veit að þetta er rétt með sendiherrastöðuna. Ég nefndi þetta við Bjarna. Bjarni má eiga það, þó að mér hafi oft fundist hann vera veiklundaður, en hann viðurkenndi þetta […] Bjarni fór út um víðan völl en niðurstaðan var sú að hann hefði fallist á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum. […] Næsta skref var að hitta Bjarna með Guðlaugi Þór. […] Bjarni má eiga það að hann fylgdi málinu vel eftir. […] Guðlaugur Þór bara: Jájá, ef það er eitthvað sem þig vantar. […] Niðurstaðan var sú að Bjarni bara sagði okkur það, að nú leysið þið þetta. En hvernig á maður að bera sig að með að fylgja málinu eftir ef Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, hefur engan áhuga á að klára málið? En formaður flokksins er búinn að segja honum að hann eigi að klára þetta.“

Halldór Auðar fjallar um þetta og gagnrýnir að skipan Geirs og Árna hafi ekki verið tekin til skoðunar hjá yfirvöldum.

„Sagan af sendiherraskipaninni var ekki talin falla þar undir af því siðareglur þingsins komu til framkvæmda eftir að atvikin sem sagt var frá á Klaustri gerðust,“ segir Halldór Auðar og bætir við að játning á hrossakaupum um sendiherrastöðurnar muni líklega ekki leiða til frekari rannsóknar. Hann segir að lokum: „Enda þykir þetta líklega það vanalegt og viðbúið að það kippir sér enginn upp við það. Þetta er sennilega ein merkilegasta (en samt ekki) niðurstaða Klaustursmálsins.“