Það ER ofbeldi gegn móðurinni

Elísabet Ýr Atladóttir skrifar:

Það ER ofbeldi gegn móðurinni

Hér er smá skoðun um mál sem hefur verið í fjölmiðlum: Börnum er almennt skítsama hvort þau fái að „umgangast báða foreldra“ ef þau búa við öryggi og umhyggju. Börn eru yfirleitt ekki mikið að spá í því hver er í kringum þau á hverri stundu, enda sækja þau þangað þar sem öryggið og stöðugleikinn fyrir þau er mestur. Þar sem þeim líður vel. Börn eru svo sannarlega raunverulega fórnarlambið í svokölluðum tálmunarmálum, þar sem foreldri (oftast feður) ganga freklega fram til að rífa upp allar rætur sem barnið getur mögulega haft til þess eins að hann fái að stjórna parti af (eða öllu) lífi þess. Tálmunarmál snýst um frekju og yfirgang annars foreldris, og ólíkt vinsælli mýtu þá er það langoftast ekki foreldrið sem "tálmar" sem sýnir þá takta.

Tálmunarmál snúast ekki um börnin. Þau snúast um stjórn. Þau snúast um hlutgervingu á börnum, þar sem barnið er orðið að einhverskonar skiptimynt fyrir vald og stjórn fólks sem hefur ekkert annað en eigin sjálfselsku að leiðarljósi. Að ásaka móður um tálmun í gegnum fjölmiðla, að kalla hana geðveika og væna hana um falskar ásakanir, er ekki að benda á ofbeldi gegn barni. Það ER ofbeldi gegn barni. Það ER ofbeldi gegn móðurinni, sem getur ekki svarað slíku án þess að eiga í hættu að það komi enn verr niður á barninu.

Hvað varð um saklaus uns sekt er sönnuð, kæru andstæðingar rétttrúnaðar og góða fólksins? Hvar er réttlætiskennd ykkar fyrir hönd þess ásakaða, þið sem segist verndarhönd vonda fólksins? Hvar er hin eilífa spurning um "tvær hliðar", nú þegar karlmaður kemur í fjölmiðla og gengur hart fram í allskonar ósönnuðum ásökunum gegn hinu foreldri barnsins síns? Er "sakleysi" orð sem er einungis nothæft fyrir karla sem hafa beitt ofbeldi og þurfa að svara fyrir það? Hvenær fá konur, mæður, að njóta vafans? Sagan er endalaus og hún er ítrekað eins, munstrið er skýrt. Karlar sem beita ofbeldi skulu njóta vafans, konur sem segja frá ofbeldi hljóta að vera að ljúga.

Konan er vond, karlinn er góður. Lygin er kvenkyns, sannleikurinn er karlkyns. Sakleysið er karlkyns, sektin er kvenkyns. Við erum í endalausri hringiðu þar sem konan, og sérstaklega móðirin, fær aldrei uppreist æru því samfélagið hefur dæmt hana úr leik frá því hún fæddist. Karlar sem fara með líf barna sinna eins og það sé helmingur af köku sem þeir áttu rétt á en fengu ekki fá litla samúð frá mér. Karlar sem kalla fyrrverandi konur sínar geðveikar á opinberum vettvangi er það sem við köllum RAUTT LJÓS.

Umræðan um tálmun snýst ekki um réttindi barna. Því hver græðir á því að líf og tilvera barns verður að átökum og vígvelli? Ekki barnið. Svo sannarlega ekki barnið.

Elísabet Ýr Atladóttir

Nýjast