Stjórnvöld stefna í kolranga átt

„Hatursglæpur er skilgreindur með þeim hætti að um sé að ræða brot gegn almennum hegningarlögum og það þarf að sýna fram á að ásetningurinn sé neikvætt viðhorf að hluta eða fullu til ákveðinna einkenna hópa sem eru sérstaklega vernduð í lögum. Þessir hópar eða einkenni eru t.d. hlutir eins og trúarbrögð, þjóðernislegur uppruni, litarháttur, kynvitund og kynhneigð,“ segir Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.

Eyrún er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Hún er með MA í félagsfræði frá Háskóla Íslands og leggur nú stund á doktorsnám í mannfræði við sama háskóla. Eyrún vann að hatursglæparannsóknum innan lögreglunnar frá 2016-2018 og var þar ein með verkefnið. Hún hefur nýlega hafið rannsókn á hatursglæpum og haturstjáningu í íslensku samhengi.

Hún segir að stundum sé gerður skýr greinarmunur á milli hatursglæpa og haturstjáningar. „[Hatursglæpir] eru þá þessi brot á hegningarlögum; gæti verið líkamsárás, gæti verið morð, gæti verið kynferðisbrot, skemmdarverk eða eitthvað þvíumlíkt; og haturstjáning sé þá í raun og veru þegar verið er að tjá hatur í orði eða einhverri orðræðu.“

Á Íslandi er það þó svo að haturstjáning fellur undir almenn hegningarlög. „Þess vegna erum við kannski með réttu að telja haturstjáningu sem hatursglæp. Það sama gera hin Norðurlöndin. Það voru t.d. 36 prósent mála sem hatursglæpadeild Oslóar lögreglunnar fékk til sín 2017 haturstjáning á meðan restin voru þessir hatursglæpir,“ segir Eyrún.

Norðurlönd víkka en Ísland þrengir skilgreiningar

Hún segir Noreg einnig flokka mismunun undir hatursglæpi og að slík tilfelli sé að finna í tölum lögreglunnar í Osló. Dæmi um mismunun af þessu tagi er þegar fólki er neitað um þjónustu eða aðgengi á grundvelli sömu einkenna hópa og skilgreiningin á hatursglæpum tekur til. Hérlendis fellur mismunun undir aðskilda grein almennra hegningarlaga. „Það er spurning hvort við ættum að gera það sama eða hvort við ættum að horfa á það áfram sem mismunun. Þetta er víð skilgreining,“ segir Eyrún.

Eyrún segir að á Íslandi standi reyndar til að þrengja þessa skilgreiningu. Sigríður Á. Andersen hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um þrengingu á gildissviði laga um hatursáróður. Í dag segir í 233. grein a í almennum hegningarlögum um hatursorðræðu, aðhver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Samkvæmt frumvarpinu er gert að skilyrði að háttsemin verði að vera til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun svo að hún varði við lög.

Eyrún segir að nái þetta frumvarp fram að ganga séum við ekki á sömu vegferð og Norðmenn, heldur þvert á móti á leið í gagnstæða átt. Finnar hafi auk þess gengið ennþá lengra í þessum efnum og sett í lög refsiþyngingarheimild vegna hatursglæpa. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi og Lýðræðisskrifstofa ÖSE eru á meðal þeirra stofnana sem hafa kallað eftir því við íslensk stjórnvöld að gera slíkt hið sama en það hefur ekki verið gert.  

Nánar er rætt við Eyrúnu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.