Stella Björg varð stjúpmóðir aðeins 22 ára: „Ég valdi að fá að koma inn í þeirra fjölskyldu en börnin fengu ekki sama val“

Stella Björg varð stjúpmóðir aðeins 22 ára: „Ég valdi að fá að koma inn í þeirra fjölskyldu en börnin fengu ekki sama val“

Þegar Stella Björg Kristinsdóttir var aðeins 22 ára gömul kynntist hún eiginmanni sínum Orra Hermanssyni sem þá var 34 ára gamall og átti þrjú börn úr fyrri samböndum. Stella varð því stjúpmóðir þriggja barna rétt skriðin yfir tvítugt.

„Þetta var pínu skrítið í fyrstu en ég var bara 22 ára að taka að mér þrjú börn,“ segir Stella sem kemur fram í þættinum Ísland í dag í kvöld.

Í dag er Stella bæði móðir og stjúpmóðir og segir hún mikilvægt að stjúpmæður móti hlutverk sitt sjálfar og taki ábyrgð á vali sínu. Morgunblaðið tók ítarlegt viðtal við Stellu í september síðastliðnum en þar segir Stella meðal annars að hún hafi litið á það sem bónus að eiginmaður hennar hafi átt börn úr fyrri samböndum.

„Það fara allir inn í fjölskylduna og reyna sitt allra besta. Það sama átti við um mig. Ég vildi ekki gera mistök en maður lærir fljótt að það eiga sér stað mistök alveg eins og í kjarnafjölskyldum. Það er eins og maður setji á sig auka pressu því maður vill svo innilega að allt gangi vel.“ Segir Stella í viðtalinu.

Kemur sjálf úr kjarnafjölskyldu

Þá greinir Stella frá því að vegna ungs aldurs hafi fáir jafnaldrar hennar verið með stjúpfjölskyldu.

„Flestar vinkonur mínar voru einnig barnlausar svo ég gat ekki alveg tengt við þetta, komandi sjálf úr kjarnafjölskyldu. Þar sem ég þekkti engan í þessari stöðu var ég fljót að skrá mig í stjúpunámskeið hjá Valgerði og kynntist þar öðrum stjúpmæðrum til að ræða við og leita ráða.“

Stella segir í viðtalinu líf fjölskyldunnar í dag vera dásamlegt. Hún eigi falleg en ólík tengsl við öll stjúpbörn sín. Þá segir hún algjör forréttindi að samskipti á milli heimila séu rosalega góð.

Stærstu áskorunina segir Stella vera þá að finna hjá sjálfum sér hvernig stjúpforeldri maður vill vera og að ná góðri fjölskyldumynd. Telur hún það taka mislangan tíma fyrir hverja og eina fjölskyldu að ná allri fjölskyldunni góðri.

„Það geta verið svo ólíkar aðstæður hjá fólki. Ég held að það sé til dæmis allt aðrar áskoranir að tveir aðilar taki saman bæði með börn úr fyrra sambandi heldur en þegar einn á barn/börn úr fyrra sambandi. Svo getur spilað inn í hversu mörg börn eiga í hlut eða hversu langt það er síðan skilnaður átti sér stað og hvort er búið að vinna úr honum.“

Börnin fengu ekki val

Stella áttaði sig snemma á því að það væri hennar hlutverk að ákveða hvernig hún vildi túlka stjúpmóður hlutverkið.

„Þegar ég fattaði að það var mín ákvörðun að byggja upp hvernig stjúpmamma ég vildi vera varð hlutverkið mun auðveldara og náttúrulega. Svo hef ég alltaf haft það bak við eyrað og reynt að muna að ég valdi að byrja með Orra og fá að koma inn í þeirra fjölskyldu en börnin fengu ekki sama val svo þau þurfa gott svigrúm.“

Nýjast