Sölvi minnist bróður síns: „Högni væri gífurlega stoltur af mér ef hann væri á lífi“

Sölvi minnist bróður síns: „Högni væri gífurlega stoltur af mér ef hann væri á lífi“

„Ég rakst fyrir einhverja tilviljun á þessar myndir í morgun.  Þarna eru þeir, stóru strákarnir í mínu lífi, pabbi og Högni Erpur bróðir minn, að huga svona fallega að ósjálfbjarga krílinu Sölva. Þrír kútar á mismunandi aldri, allir að gera sitt besta.“

Þetta segir fjölmiðlamaðurinn og rithöfundurinn Sölvi Tryggvason en bók hans, Á eigin skinni sló í gegn á síðasti ári. Sölvi deildi áhrifaríkri frásögn á samfélagsmiðlum í gærkvöldi en þar birti hann áhrifaríka hugvekju um Högna bróður sinn. Högni hefði orðið 47 ára í síðustu viku en hann var aðeins tíu ára þegar kallið kom skyndilega. Sölvi segir:

„Einstöku sinnum velti ég því fyrir mér hvernig væri að eiga eldri bróður á lífi, en það átti ekki að verða og ég geri því mitt besta til þess að heiðra minningu hans með því að lifa lífi mínu til fulls og vera þakklátur fyrir allt það sem ég fæ að gera og upplifa,“ segir Sölvi og bætir við:

„Hendurnar á Högna bróður mínum, sem hvíla svona fallega á höfði mínu og maga á þessum myndum hef ég oft séð sem verndarhendur þegar ég geng í gegnum erfiða tíma. Ég veit að Högni væri gífurlega stoltur af mér ef hann væri á lífi og það hvetur mig til að sjá sjálfan mig í sama ljósi og halda áfram að gera mitt allra besta til að heiðra minningu hans.“

Þá endar Sölvi hugvekju sína á þessum orðum:

„Ég skora á ykkur öll að æfa ykkur sem oftast í að sjá ykkur sjálf á sama hátt og þið sjáið þá sem ykkur þykir vænst um. Það gæti komið ykkur á óvart hvað kemur í ljós við slíkar æfingar....“

Nýjast