Skuggalegur tilgangur sjálfstæðisflokksins: hatrið skín í gegn

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt um stuðning við einkarekna fjölmiðla. Eftir því hefur lengi verið beðið, enda er staða þessara fjölmiðla erfið. Þegar þessum áfanga er nú náð vekur mikla athygli að Sjálfstæðismenn beita sér af krafti gegn framgangi málsins, og segja það jafnvel andvana fætt. Hvers vegna skyldi það vera?

Það er Stefán Ólafsson prófessor sem ber fram þessa spurningu á bloggi sínu á Eyjunni. Ólafur bendir á að Sjálfstæðismenn hafi hingað til ekki verið því mótfallnir að ríkið styðji við bakið á ýmsum einkarekstri. Það hafa þeir gert linnulaust í tugi ára, frá landbúnaði til sjávarútvegs. Ástæðan er alveg skýr. Þeir ætla sér að knésetja RÚV. Stefán segir:

„Hún er sú, að þeir ætla að nota sér einhvers konar samningsstöðu um þetta mál til að veikja RÚV stórlega. Helst vilja þeir taka RÚV alveg af auglýsingamarkaði og alls ekki bæta því tekjumissinn. Þeir vilja sem sagt skera RÚV niður við trog og helst losna alveg við það.“

Og þetta segja þeir tæpitungulaust. Stefán bætir við að hatur margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins á RÚV hafi ekki farið framhjá neinum. Stefán segir:

„Og ekki hafa uppljóstranir um Panama- og Samherjaskjölin dregið úr þeirri afstöðu Sjálfstæðismanna.“

 Stefán bendir á að gíslataka Sjálfstæðismanna á frumvarpi Lilju sé ekki í þágu almennings sem vill þróttmikla einkarekna fjölmiðlaflóru. Og nú þegar Lilja vill efla þá einkareknu og halda RÚV á svipuðu róli og um leið efla íslenska menningu, þá setja Sjálfstæðismenn niður fótinn, þvert á það sem kjósendur og auglýsingastofur vilja. Stefán segir að lokum:

„Sjálfstæðismenn eru hins vegar ekki að vinna fyrir almenning í þessu máli. Tilgangur þeirra er allur annar og skuggalegri.“