Sjallaball, nýr ritari og sem minnst pólitík

Sjallaball, nýr ritari og sem minnst pólitík

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kemur saman til fundar á morgun.  Á fundinum verður kosinn nýr ritari flokksins. Einnig á að fagna 90 ára afmæli flokksins sem einnig var gert í sumar en tókst heldur illa.

Margir flokksmenn voru afar óhressir með að Katrín Jakobsdóttir, sósíalistaleiðtogi og hernámsandstæðingur, væri heiðursgestur á samkomunni í sumar en þrír núlifandi fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins voru hvergi sjáanlegir. Einn þeirra var erlendis, annar er genginn úr flokknum og sá þriðji sat úti í bæ og dró flokkinn sundur og saman í háði og harðri gagnrýni.

Katrín Jakobsdóttir var svo jákvæð og allt að smeðjuleg í ávarpi sínu við þetta tækifæri að sumir veltu því fyrir sér hvort hún væri á leiðinni að ganga í Sjálfstæðisflokkinn en flokkur hennar Vinstri græn eru á mikilli niðurleið eins og kunnugt er. Hún vill jafnvel forða sér áður en flokkur hennar þurrkast út af Alþingi. Hún gæti auðvitað sóst eftir formennsku í Sjálfstæðisflokknum á næsta landsfundi þegar Bjarni Benediktsson hættir. Sjálfstæðisflokkinn skortir hvort sem er forystumenn. Tvær flugur í einu höggi!

Á fundinum verður kosið á milli Jóns Gunnarssonar, þingmanns og fyrrverandi ráðherra, og Áslaugar Huldu, bæjarfulltrúa í Garðabæ. Jón er þjóðþekktur en Áslaug Hulda er lítið þekkt utan Garðabæjar. Það yrði því saga til næsta bæjar ef Jón Gunnarsson færi ekki með sigur af hólmi í þessu kjöri.

Það er athyglisvert að sjálfstæðismenn virðast ekki hafa mikinn áhuga á að ræða um stjórnmál á þessum fundi. Það þarf að ljúka við kosningu ritara og svo er öll áhersla lögð „SJALLABALL ALDARINNAR“ þar sem STJÓRNIN leikur fyrir dansi eftir hátíðarkvöldverð á Hilton Nordica hótelinu. Veislustjóri verður enginn annar en Logi Bergmann Eiðsson, eiginmaður Svanhildar Hólm Valsdóttur sem er aðstoðarkona Bjarna Benediktssonar fjármála-og skattamálaráðherra Íslands. Logi er eftirsóttur veislustjóri eins og margir þjóðþekktir leikarar. Þeir eru vanir að taka drjúgar fjárhæðir fyrir viðvik sín og eru sagðir hafa þrjá mismunandi verðflokka; ókeypis fyrir vini og ættingja, kr. 150.000 ef ekki er lagður fram reikningur og greitt með reiðufé, og loks kr. 250.000 ef leggja þarf fram reikning og greiða skatt af tekjunum. Við skulum vona að flokkur skattamálaráðherrans geri upp við Loga með viðunandi hætti.

Nýjast