Sjálfsblekking einkennir vinstri græna

Engin teljandi átök urðu á flokksþingi Vinstri grænna um síðustu helgi þrátt fyrir að margt bjáti á í flokknum og dökk ský séu á lofti.

Lítið var fjallað um veika stöðu flokksins í öllum skoðanakönnunum sem mæla allar fylgishrun Vinstri grænna frá kosningunum haustið 2017. Nú síðast könnun Fréttablaðsins sem sýnir að flokkurinn hefur fallið í fylgi úr 17% í 12.7% - um meira en fjórðung - og misst samkvæmt því 3 þingmenn af 11. Sumar kannanir sýna Vinstri græn í enn lakari stöðu.

Flokkurinn hefur talað stöðugt um loftslagsmál og umhverfisvernd það sem af er kjörtímabili og fleytt sér aðeins áfram á því. En það mun ekki duga honum mikið lengur því allir flokkar á þingi, nema Miðflokkurinn, eru komnir með svipaða stefnu í þessum málum og sérstaða Vinstri grænna engin orðin.

Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, hafa verið mislagðar hendur í ýmsum stórum málum. Þannig klúðraði hún viðkvæmri stöðu í Geirfinnsmálinu með því að kynna sér ekki málavöxtu. Það var ömurleg framganga sem hún skammast sín fyrir og grætur yfir.

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna var vandræðaleg fyrir Katrínu. Hún ætlaði að víkja sér undan því að hitta hann en komst ekki upp með það. Hún neyddist til að beygja sig undir kröfur Bjarna Benediktssonar og Guðlaugs Þórs sem vildu að honum yrði sýnd eðlileg kurteisi.
Þetta kom illa út fyrir Katrínu.

Þá er Ísland komið á válista með vanþróuðum ríkjum vegna skorts á reglum varðandi peningaþvætti. Þetta gerist á vakt Katrínar og er ekki til að hjálpa.

Seinni hálfleikur er hafinn og ekkert bendir til þess að Vinstri græn nái að rétta hlut sinn. Hvað tekur Katrín þá til bragðs?