Líf sigríðar umbyltist eftir líkamsárás: segist núna sjá dáið fólk - „oft [eru] þessir framliðnu komnir með mér í bílinn“

Sigríður Berndsen miðill var gestur Sigmundar Ernis í þættinum tuttugu og einn, lífið. Þar ræddu þau um hina framliðnu, efasemdirnar og leit Sigríðar að tilgangi lífsins.

Sigríður hefur starfað sem miðill í rúmlega átján ár en hún hefur verið búsett í Boston í tuttugu ár. Hún segir í viðtali við Sigmund að bestu miðlarnir viti hvenær þeir eigi að loka en að hinir framliðnu séu reglulega með henni.

„Miðlar vinna á mismunandi hátt og þegar ég er á einkafundi gef ég mér svona fimmtán mínútur í að opna, en aftur á móti er ég oft með þessa framliðnu með mér í bílnum á leiðinni í vinnuna,“ segir Sigríður og bætir því við að hún geti bæði séð fólk í huganum og við hliðina á fólki.

Sigmundur spyr Sigríði þá hvað það er sem hún sér og veltir því fyrir sér hvort þetta séu verur, andar eða tilfinning?

„Þetta er allt það sem þú segir. Þetta er sálin, við lifum mörgum lífum. Framliðnir þeir lifa með okkur og við endurfæðumst, ekki bara inn í andaheiminn, heldur frá andaheiminum inn í nýtt líf. Sem miðlar þá stillum við okkur inn á þeirra tíðni. Það eru alltaf andar í kringum okkur,“ segir Sigríður.

„Eru andar í kringum mig núna?“ Spyr Sigmundur þá.

„Já, það eru alltaf andar í kringum okkur,“ segir Sigríður og bætir við: „Við erum með leiðbeinendur, mismunandi leiðbeinendur fyrir mismunandi hluta af okkar lífi, en við eigum flest okkar leiðbeinendur í gegnum lífið. Það eru oft leiðbeinendur eða framliðnir sem okkur hefur þótt voðalega vænt um sem til dæmis hjálpa okkur frá hættum og þess háttar. Sem dæmi, ég var í bílslysi í febrúar fyrir ári síðan og ég var búin að sjá það fyrir. Ég var búin að sjá það gerast en ég var bara á vitlausum stað í huganum. Ég vissi að þetta yrði annað hvort til vinnu eða frá vinnu, en ég hélt að þetta yrði innanbæjar en þá var þetta sem sagt þegar ég var að koma úr vinnu úr heimahúsi. Þannig að öll þessi orka er alltaf í kringum okkur. Það er undir okkur komið að fara inn á þessa tíðni.“

Sigmundur spyr Sigríði hvað hún myndi segja við hann ef hann teldi þetta vera bull og blekkingarvef og viðurkennir Sigríður þá að hún hafi sjálf verið í þeim sporum.

„Þegar ég var guðleysingi frá því að ég var svona um 12-13 ára. Mér fannst þetta vera svo mikið bull og vitleysa. Ég var ein af þeim sem að lenti mikið í einelti og sem barn að þá bað ég mikið til guðs. Ég bað guð um að láta þessa krakka hætta þessu en þetta var linnulaust og mér fannst eins og bænin, mér fannst enginn vera að heyra í mér. Þá missti ég alla trú á guð og mér fannst þetta bara vera vitleysa,“ segir hún.

Kaflaskil í lífi Sigríðar eftir að hún varð fyrir líkamsárás í Boston

Sigmundur spyr hana þá hvað gerðist, hvort þetta hafi komið til hennar.

„Nei, ég er fædd svona en ég bara vissi ekki hvað þetta var. Núna þegar ég hugsa til baka um mína æsku, að þá sögðu mínir vinir og skólafélagar oft að ég væri spes. Ég var mjög mikið í mínum eigin heimi og var mjög sérstök. Ég sé það í dag á mínum fullorðinsárum að ég hefði sjálf litið á mig sem mjög skrítið barn,“ segir Sigríður.

Árið 2001 urðu kaflaskil í lífi Sigríðar þegar hún gekk inn í spíritúalista kirkju í leit að tilgangi lífsins.

„Ég flutti til Boston og verð fyrir líkamsárás. Það breytti lífi mínu eiginlega alveg gjörsamlega. Þá fer ég að leita að því sem er á bak við lífið. Líkamsárásin gerðist árið 2000 og þetta hafði verið svolítið erfitt ár. Árið 2001 labba ég inn í spíritúalista kirkju því ég vildi vita að það væri eitthvað meira á bak við lífið og það breytti mínu lífi. Það var miðill að vinna þarna sem kemur með skilaboð að handan fyrir tælenska konu. Hún var ekki með neina háskólamenntun eða neitt en hún segir við hana að hún þurfi að segja henni eitt sem hún heyri. Svo endurtók hún nákvæmlega það sem hún heyrði og hún skildi það ekki sjálf. Þá segir þessi koma frá tælandi að þetta hafi verið maðurinn hennar og að hann hafi sagst elska hana. Við göptum öll yfir þessu,“ segir Sigríður.

Það var eftir þetta atvik sem Sigríður fór að læra að verða miðill og segist hún hafa lært að setja listir og fjármálafræði saman við.

„Þá fór ég að taka eftir því að ég gat tengst framliðnum og spurt þau spurninga. Þetta er ekki trú, þetta er að vita,“ segir hún.

Þrátt fyrir að Sigríður segist loka á miðilsgáfu sína á milli þess sem hún er að vinna viðurkennir hún að starfið taki á.

„Þegar ég er á leiðinni í vinnuna þá eru oft þessir framliðnu komnir með mér í bílinn. Þá þarf ég að fylgjast með öllu, hraðanum, ljósunum, löggunni og svo er ég í hörku samræðum við þá og oft þegar ég kem í vinnuna þá er ég byrjuð á einhverju,“ segir hún og Sigmundur spyr hana þá hvort hún sé ekki full af angist eftir að eyða tíma sínum alltaf í kringum syrgjandi fólk.

„Ekki kannski angist en ég verð þreytt og ég viðurkenni það alveg. Þeir sem eru að syrgja þurfa að passa sig að leita ekki of mikið til miðla. Miðlar eru ekki Jesús, við erum í rauninni bara fréttamenn. Ef fólk er í sorg á það að leita til sálfræðinga og leita til geðlækna og fá hjálp. Því við erum bara þau sem erum að tengjast framliðnum. Við getum ekki hjálpað fólki úr sorginni við bara tengjumst. Komum með minningar og annað þess háttar.“

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á viðtalið í heild sinni sem byrjar um miðjan þátt: