Sigmundur Davíð vill lækka laun ráðherra: Sjálfstæðisflokkurinn átti hugmyndina um að hækka laun um 50% - „Allt umfram það er þjófnaður elítu“

Sigmundur Davíð vill lækka laun ráðherra: Sjálfstæðisflokkurinn átti hugmyndina um að hækka laun um 50% - „Allt umfram það er þjófnaður elítu“

Formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lagði til þegar Alþingi kom saman að laun ráðherra yrðu lækkuð um 20 prósent. Breytingartillagan sem er við frumvarp Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra var felld. Sagði Sigmundur Davíð að tilgangurinn væri að varpa rýrð á þá sem sætu sem ráðherrar. Bjarni kvað sér hljóðs og  sagði stórundarlegt að hlusta á umræðu um launamun milli ráðherra og þingmanna. Þá sagði Bjarni að það væri sérstaklega undarlegt í ljósi þess að Alþingi hefði samþykkt 50 prósent álag fyrir formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu þannig að launakjör þeirra væru svipuð og hjá ráðherrum. Bætti Bjarni við og uppskar mikinn hlátur:

„Með sömu rökum mætti alveg eins og segja að þessar álagsgreiðslur væru sérstakur hvati til að stofna stjórnmálaflokk og gerast í honum formaður og ná sér þannig í álagsgreiðsluna.“

Þess má geta að laun formanna stjórnarandstöðuflokka voru hækkuð um 50 prósent þegar Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn voru við völd. Kom það í hlut Halldórs Blöndal þáverandi forseta Alþingis að mæla fyrir þeirri hækkun. Voru uppi kenningar að sú ákvörðun hefði verið tekin af Sjálfstæðisflokknum til að draga tennurnar úr stjórnarandstöðunni.

Gunnar Smári Egilsson formaður Sósíalistaflokksins tjáir sig um uppástungu Sigmundar Davíðs. Hann segir:

„Auðvitað hefur Sigmundur rétt fyrir sér; laun íslenskra ráðherra eru út úr öllu korti. Fram hefur komið að íslenskir ráðherrar séu með hæst launuðu stjórnmálafólki í heiminum ásamt íslenskum borgar- og bæjarstjórum. Pólitík á að vera fyrir fólk sem vill láta gott af sér leiða, ekki fólk sem sækist eftir hærri launum en það getur fengið annars staðar.“

Þá segir Gunnar Smári:

„Horfið yfir ríkisstjórnina og svarið eftirfarandi: Væri þetta fólk einhvers staðar með um og yfir tvær milljónir á mánuði, alla risnu greidda og bíl og bílstjóra að auki? Laun ráðherra og bæjarstjóra eiga að vera á pari við laun skólastjóra í grunnskóla og laun þingmanna á borð við yfirkennara. Allt umfram það er þjófnaður elítu sem kemst upp með að moka undir rassinn á sjálfum sér, allt þar til almenningur rís upp og varpar þessari byrði af sér.“

Nýjast