Sigmundur búinn með sín pólitísku líf

Karl Garðarsson og Róbert Marshall mæta í Ritstjórana í kvöld:

Sigmundur búinn með sín pólitísku líf

Mér sýnist á öllu að Sigmundur Davíð sé búinn með sín pólitísku líf eftir Klausturshneykslið, segir Karl Garðarsson fyrrverandi ritstjóri, fréttastjóri og þingmaður í Ritstjórunum í kvöld og sessunautur hans, Róbert Marshall, þrautreyndur fjölmiðlamaður og fyrrverandi þingmaður tekur í sama streng.

Þegar öllu er á botninn hvolft eiga þingmenn að vera almennilegar manneskjur, bætir Róbert við; það sé það sem almenningur vilji, en mannfyrirlitningin í Klausturssamtalinu hafi aftur á móti verið svo yfirgengileg að fólk geti ekki fyrirgefið ósköpin, þarna hafi svo langt verið farið yfir strikið, hér sé um eitthvert mesta hneyksli síðari tíma þingsögu að ræða.

Karl telur að bæði Gunnar Bragi og Bergþór Ólason séu búnir að tapa öllum sínum pólitísku áhrifum, þeir geti sjálfsagt haldið áfram á þingi, en þeir séu rúnir trausti - og eins og í tilviki Sigmundar Davíðs muni engir úr öðrum flokkum hafa áhuga á að vinna meira með þeim. Útskúfunin bíði þeirra. Og Róbert bætir við; þessir menn eru, svo notuð sé akureyska, orðnir eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilji berja á.

Karl telur að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins muni á endanum græða á því að hafa rekið Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason úr flokknum, fólk muni muna það við næstu kosningar að hún hafi hreinsað til og gengið þar rösklega fram, en Róbert er ekki sammála, Flokkur fólksins muni fjara út og Miðflokkurinn nánast líka, þótt líklegt sé að Sigmundur Davíð geti skriðið inn á næsta þing við þriðja mann í mesta lagi. Fólk gleymi ekki þessu máli. Það sé of stórt til þess.

Ritstjórarnir byrja upp úr 21:00 í fréttaþættinum á Hringbraut sem kenndur er við þá tímasetningu.    

 

Nýjast