Sesselja segir ungbarnadauða varla sjást á íslandi vegna góðrar þátttöku í bólusetningum barna

Sesselja Guðmundsdóttir, sviðsstjóri ung- og smábarnaverndar Þróunar segir forvörn ung- og smábarnaverndar eina af mikilvægustu forvörnunum. Þar efla þau heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og heilbrigðisfræðslu til fjölskyldna.

Sesselja greinir frá þessu í Morgunblaðinu í dag þar sem hún fjallar um heilsufar og bólusetningar barna.

„Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna og er mikilvægt að uppgötva frávik í heilsufari og þroska sem fyrst og gera viðeigandi ráðstafanir. Ekki er síður mikilvægt að bólusetja börnin á réttum aldri til að koma í veg fyrir að þau smitist af alvarlegum smitsjúkdómum,“ segir Sesselja.

Greinir hún frá því að ung- og smábarnavernd hafi verið í boði á Íslandi í meira en eina öld en Hjúkrunarfélagið Líkn var stofnað árið 1915.

„Hjúkrunarkonur fóru í heimavitjanir frá fæðingu barns til sex mánaða aldurs. Það var mikil fátækt á þessum tíma og útvegaði ungbarnaverndin mjólk, lýsi, matvörur, fatnað, barnarúm og fleiri nauðsynjar til fátækra fjölskyldna. Einnig var boðið upp á ljósböð fyrir börn sem þrifust illa, voru með langvarandi kvef eða beinkröm,“ segir hún ungbarnadauða hafa verið algengan á þessum árum vegna smitsjúkdóma.

„En vegna góðrar þátttöku í almennum bólusetningum barna þá sjást þeir varla núorðið hér á landi og hefur Ísland verið um árabil með einn minnsta ungbarnadauða í Evrópu. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um þennan góða árangur sem við höfum náð hér á landi. Tryggja þarf áframhaldandi góða þátttöku í bólusetningum til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og alvarlegar afleiðingar þeirra,“ segir Sesselja og þrátt fyrir að margt hafi breyst frá því að Líkn hóf störf að þá byggist ung- og smábarnaverndin enn á sama grunni og sé öllum foreldrum að kostnaðarlausu.

„Hjúkrunarfræðingar fara ennþá í heimavitjanir og koma foreldrar síðan í kjölfarið á heilsugæslustöðina með barnið í skoðanir og hitta lækni og hjúkrunarfræðing sem fylgir fjölskyldunni næstu árin. Lögð er áhersla á að efla þekkingu og styrkja færni foreldra í nýjum aðstæðum og fylgst er með þroska barna frá fæðingu til skólaaldurs. Skimað er fyrir þunglyndi og kvíða hjá mæðrum fyrir og eftir fæðingu og boðið upp á viðtöl við hjúkrunarfræðinga, heimilislækna og sálfræðinga.“

Segir hún grunninn lagðan að framtíð einstaklinga og að hjúkrunarfræðingar og læknar séu í einstakri aðstöðu til þess að veita foreldrum ráðleggingar og stuðning.

„Vert er að hafa í huga að árangursrík heilsuvernd barna á heilsugæslustöðvum er ein besta leiðin til að draga úr kostnaði vegna heilsufarsvanda síðar meir.“