Segir útvegsmenn hafa lagt inn á Panama-reikninga Sjálfstæðismanna: Fjármokstur sem brýtur gegn velsæmi

Segir útvegsmenn hafa lagt inn á Panama-reikninga Sjálfstæðismanna: Fjármokstur sem brýtur gegn velsæmi

„Sjálfstæðismenn kipptu sér þó ekki upp við Panama-skjölin, depluðu ekki auga, heldur varð ágreiningur um ESB til að kljúfa flokkinn þegar Evrópusinnar stofnuðu Viðreisn. Nú láta þjóðremblar flokksins ófriðlega.“ Þetta segir Þorvaldur Gylfason í grein í Fréttablaðinu. Hann segir stjórnmál hér á landi í uppnámi og gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega og hann lúti í gras fyrir Vinstri grænum í hverju málinu á fætur öðru. Þorvaldur segir um Sjálfstæðisflokkinn:

„Þeir gera ágreining um orkumál – menn sem hafa áratugum saman sólundað sameignum þjóðarinnar til sjós og lands í hendur glæpamanna sem keyrðu bankana í kaf, útvegsmanna og erlendra orkukaupenda á kostnað réttra eigenda, fólksins í landinu. Fari sem horfir mun Sjálfstæðisflokkurinn skiptast upp í enn smærri og meðfærilegri einingar.“

Þá segir Þorvaldur einnig: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið á sjá og hefur koltapað fyrir kommunum í hverju málinu á eftir öðru. Þegar varnarliðið fór úr landi 2006 reyndust sjálfstæðismenn ekki hafa gert neinar ráðstafanir til að tryggja varnir landsins með öðrum hætti. Kommarnir gátu sagt: Þarna sjáið þið, varnarrökin fyrir veru hersins í landinu voru einber fyrirsláttur, þið voruð bara að hugsa um hermangið. Ég segi „kommarnir“ því þannig tala margir sjálfstæðismenn enn um andstæðinga sína.“

Þá heldur Þorvaldur fram að Sjálfstæðismenn sem stjórnuðu landinu samfleytt frá 1991 til 2009, með Framsókn og síðan Samfylkingu hafi keyrt landið lóðbeint í kafi og valdið efnahagslegum skaða.

„Enginn þeirra var þó látinn sæta ábyrgð, öðru nær. Sá þeirra sem keyrði Seðlabankann í kaf heldur áfram að láta ljós sitt skína í Morgunblaðinu, fjármagnaður af útvegsmönnum,“ segir Þorvaldur og bætir við: „Sjálfstæðismenn hafa reitt sig á réttarkerfi sem þeir hafa mannað að miklu leyti sjálfir, refsileysi og fyrningu brota, eins og t.d. þegar álitlegur hluti gjaldeyrisforða Seðlabankans var sendur til Tortólu 6. október 2008 og bankinn komst í þrot.“

Þá sakar Þorvaldur Sjálfstæðismenn um að beita sér af alefli gegn staðfestingu nýrrar stjórnarskrár á Alþingi 2013-2017. Það hafi verið gert til að tryggja eigin hag og útvegsmanna gegn skýrum vilja fólksins í landinu. Þorvaldur segir:

„Til að bregða birtu á málið skulum við skoða tölur frá 2006 því þær voru afhjúpaðar í skýrslu RNA (8. bindi, bls. 164) en hefðu ella farið leynt. Það ár tóku stjórnmálaflokkarnir við 173 mkr. á núvirði bara frá bönkunum og fékk Sjálfstæðisflokkurinn helming fjárins.

Fjárhæðin jafngilti þá 2,3 milljónum Bandaríkjadala sem gerir um 2,3 milljarða dala hér heima miðað við fólksfjölda. Sama ár, 2006, nam heildarkostnaður vegna þingkosninga í Bandaríkjunum 2,8 milljörðum dala. Af þessu má ráða að fjármokstur í stjórnmálamenn og flokka hefur verið svipaður á Íslandi og í Bandaríkjunum þar sem auðmenn hafa í allra augsýn tekið völdin af almenningi.

Nauðsyn ber til að nýrri rannsóknarnefnd verði falið að svipta hulunni af stuðningi útvegsmanna og annarra við stjórnmálamenn og flokka og innlögnum á Panama-reikninga stjórnmálamanna. Fjármokstur sem brýtur gegn velsæmi, að ekki sé meira sagt, verður að víkja fyrir mannréttindum og lýðræði.“

Nýjast