Segir peninginn hafa farið í útför og erfidrykkju og að hún hafi tilkynnt andlát föður síns samviskusamlega

Segir peninginn hafa farið í útför og erfidrykkju og að hún hafi tilkynnt andlát föður síns samviskusamlega

Mynd: RÚV
Mynd: RÚV

Kona um sextugt var fyrr á árinu ákærð af embætti héraðssaksóknara fyrir fjárdrátt. Er henni gefið að sök að hafa dregið sér fjármuni af bankareikningi dánarbús föður hennar. Konan er sögð hafa gert það með fimm millifærslum sem námu samtals 2,2 milljónum króna. Þá er hún sögð hafa látið hjá líða að tilkynna andlát föður síns formlega til sýslumanns. Konan neitar sök. Vísir greinir frá.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Í ákæru kemur fram að sama dag og konan framkvæmdi fimmtu millifærsluna hafi hún tilkynnt um andlát föður síns til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafði faðir hennar verið látinn í rúma viku. Hann lést þann 22. október árið 2015.

Samkvæmt konunni, sem er yngst fimm systkina, er málið síður en svo þetta einfalt. Öll fjögur systkini hennar og dánarbú föðurins gera þá kröfu að konan verði dæmd til að greiða bætur að fjárhæð 2,45 milljónir króna, auk vaxta.

Konan segist hafa tilkynnt andlát föður síns samviskusamlega og kveðst hafa kvittun því til sönnunar undir höndum. Auk þess hafi hún varið fjármunum föður síns, að hans ósk, í útför og erfidrykkju. Segir konan fjölskyldu sína, þá sömu og kærðu hana til lögreglu, hafa verið meðvitaða um þá ákvörðun. Hún hafi staðið ein að útför föður og móður þeirra, sem lést árið 2013.

Konan segir málið til komið vegna illsku og hefnigirndar bræðra sinna sem hefðu úthúðað sér og svert mannorð allt síðan hún hafi árið 2015 sagt frá misnotkun sem átti sér stað innan fjölskyldunnar.

Nýjast