Segir Guðjón hafa afhjúpað villandi umræðu: Taldi öll verslunar- og veitingarými á Laugavegi

Segir Guðjón hafa afhjúpað villandi umræðu: Taldi öll verslunar- og veitingarými á Laugavegi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri deilir í dag færslu sem Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur og rithöfundur, birti á Facebook. Segir Dagur að Guðjón hafi með því afhjúpað hvað umræðan um miðborgina geti verið einsleit og villandi. Guðjón gekk Laugaveg, Skólavörðustíg og Bankastræti og taldi öll rými ætluð til verslunar og veitingasölu.

Guðjón segir: „Alls reyndust þau samkvæmt minni talningu vera 251, þar af var 21 rými autt (8,4%) en 230 í rekstri. Verslanir í rekstri eru 150, veitingahús, barir og kaffihús eru 65 en annar rekstur í 15 rýmum (svo sem rakara-og hárgreiðslustofur, Gullnáman, tattoo, spa, eitt safn og fleira). Ég komst líka að því að sum af hinum auðu rýmum eru að komast í rekstur aftur.“ Þá segir Guðjón á öðrum stað: „Eftir standa 11 auð rými sem ég veit ekki hvort hafa verið leigð út. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því?“

Dagur deilir eins og áður segir niðurstöðu Guðjóns. Dagur segir:

„Við þurfum sannarlega að ræða verslun sem er að breytast hratt alls staðar í heiminum. Verslunarmiðstöðvum er að loka þúsundum saman í Bandaríkjunum vegna netverslana - svarið eru áhugaverðir borgarkjarnar með áherslu á fólk og rétta blöndu verslana og veitingahúsa (fólk fer meira út að borða þó það versli minna í búðum). Miðborgir eru því og verða málið. Hér heima er margt á réttri leið og miðborgin að ganga í gegnum endurreisn og miklar og spennandi breytingar. Einsog gjarnan gildir um breytingar þá getur sitt sýnst hverjum. Jákvæð þróun er mjög víða: Harpa, Grandinn, Hverfisgata, Kvos, Hafnartorg, Hlemmur og Laugavegur göngugata. Ég er sannfærður um að niðurstaðan verður áhugaverðari, fjölbreyttari, kraftmeiri og skemmtilegri borg.“

Nýjast