Segir af sér sem varaþingmaður

Segir af sér sem varaþingmaður

Mynd: Kjarninn
Mynd: Kjarninn

Snæbjörn Brynjarsson hefur sagt af sér sem varaþingmaður Pírata vegna óviðeigandi hegðunar sinnar í garð Ernu Ýrar Öldudóttur, blaðamanns hjá Viljanum og fyrrverandi formanns framkvæmdaráðs Pírata, um liðna helgi. Þetta kemur fram í Facebook færslu Snæbjörns.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Snæbjörn hefði hellt sér yfir hana á Kaffibarnum aðfaranótt laugardags síðastliðins. Þar sagðist hann fyrirlíta hana fyrir að vinna hjá Birni Inga Hrafnssyni. Erna segir þetta hafa verið mjög óþægilegt og ógnandi, þar sem Snæbjörn hafi sagst hata hana og vilja berja hana.

Snæbjörn neitar því að hafa haft í hótunum og einn af tveimur mönnum sem voru vitni að samskiptunum segir það vera rétt. Snæbjörn hafi lýst fyrirlitningu í garð Ernu Ýrar, verið mikið niðri fyrir en ekki hótað ofbeldi að sögn mannsins.

„Ég missti stjórn á skapi mínu og sagði hluti við hana sem voru með öllu óviðeigandi. Sú hegðun sem ég sýndi umrætt kvöld er ekki sæmandi kjörnum fulltrúa. Ég mun axla fulla ábyrgð á gjörðum mínum og bið alla hlutaðeigandi afsökunar og vona að sem minnstur skaði hafi hlotist af. Í ljósi atburða liðinnar helgar hef ég því ákveðið að segja af mér sem varaþingmaður Pírata, frekar en að láta þessa hegðun kasta rýrð á samstarfsfélaga mína og Alþingi,“ segir Snæbjörn í færslu sinni.

Hann segir einnig að sér sé annt um virðingu Alþingis, traust fólks á kjörnum fulltrúum, en sér í lagi þær þúsundir manna sem kusu Pírata og öll þau hundruð sem lögðu á sig þrotlausa sjálfboðavinnu til að tryggja sér kjör. „Af virðingu fyrir því umboði sem allt þetta fólk veitti mér hef ég ákveðið að segja af mér tafarlaust sem varaþingmaður Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður og víkja úr öllum ábyrgðarstöðum sem Píratar hafa falið mér. Ég ætla mér að læra af þessum mistökum og biðst innilega afsökunar á hegðun minni.“

Nýjast