Sauð upp úr í ráðhúsinu: „bræðiskast borgarstjóra“ – vigdís reiddist og svaraði fyrir sig – sjáðu myndböndin

Það sauð uppúr á fundi borgarstjórnar í gær en myndskeið af átökum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Vigdísar Hauksdóttur má sjá neðst í fréttinni.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar brutu lög um skjalavörslu og skjalastjórn í tengslum við uppbyggingu Braggans í Nauthólsvík. Það er niðurstaða frumkvæðisrannsóknar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Skýrsla um niðurstöðurnar lá fyrir í desember á síðasta ári og var gerð opinber í síðustu viku. Málið var rætt á borgarstjórnarfundi í gær og var mikill hiti á fundinum. Vigdís hélt áfram að gagnrýna borgarstjóra í ræðustól ráðhússins í gær. Sagði hún borgarstjóra ekki svara fyrir málið, lögbrotin, eyddu tölvupóstana og allt það sem miður hefði farið. Vigdís sakaði Dag um að vilja ekki gefa upp nöfnin á þeim sem unnu við Braggann sem eru hættir nema hann. Þá sagði Vigdís að Dagur notaði starfsfólk sem mannlegan skjöld. Jafnframt sagði Vigdís að Dagur væri kominn upp að vegg.  Þá fékk borgarlögmaður einnig sneið frá Vigdísi.

Þá var Degi nóg boðið,  steig í pontu og hjólaði af fullum krafti í Vigdísi og fannst hún hafa gert lítið úr borgarlögmanni.

„Fyrstu tilfinningalegu viðbrögð þegar einhver setur fram svona sterka skoðun á einhverju er: „Getur eitthvað verið til í þessu.“ Ég man hvað það var mikil upplifun fyrir mig fyrir röð tilviljana að ég hnaut um samantektar fréttar [RÚV] frá 9. Febrúar árið 2016,“ sagði Dagur og hélt áfram:

„Tilefni var að ríkisendurskoðandi sendi forseta Alþingis bréf þar sem hann gerði alvarlegar athugasemdir við innihaldslausar ásakanir Vigdísar Hauksdóttir, þá formann fjárlaganefndar um meintan sofandahátt ríkisendurskoðanda. Númer tvö var rakið að forstjóri landspítalans var vændur um andlegt ofbeldi af hálfu Vigdísar Hauksdóttir fyrir að kvarta yfir framgöngu þáverandi þingmanns á þingmannafundi.“

Dagur týndi svo til fleiri dæmi: „Starfsfólk fjármálaráðuneytisins reyndi að bera hönd yfir höfuð sér vegna ásakana um lögbrot. Ég er enn þá að lesa upp úr einni og sömu fréttinni, embættismenn voru ásakaðir um minnisleysi, Isava voru ásakaðir um að vera gripnir eins og smákrakkar í sælgætisbúð, svo beint sé vitnað í RÚV,“ sagði Dagur og upptalningunni var ekki lokið. „Forstöðumenn voru ásakaðir um að vera æstir í glópagull, starfsfólk Alþingis var ásakað um að ávarpa þingmenn en líta ekki bara niður í gaupnir sér í djúpri virðingu fyrir þeim. Það þurfti þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Ben í lok fréttarinnar til að setja ofan í við Vigdísi.“

Dagur var hvergi nærri hættur:

„ ... þetta er aðferð Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa í pólitík og hefur verið næstum því í 10 ár. Þannig að ég bið borgarstjórn og aðra áhyrendur að gera ekkert með það sem borgarfulltrúinn slengir fram nema fyrir því séu frekari rök en orð borgarfulltrúans. Það er bara því miður þannig.“

Þá benti Dagur borgarfulltrúum að kynna sér frétt RÚV frá 9. febrúar árið 2016.  Dagur hélt áfram:

„Þetta er orðið lengra mál um þetta en ég kæri mig um. Ég get bara ekki sem framkvæmdastjóri þessarar borgar með 9000 manns í vinnu sem þurfa að búa við það  að hér sé verið að dreifa ásökunum, dylgjum, beint og óbeint úr ræðustól þar sem fólk getur ekki borið hönd yfir höfuð sér. Það er komið nóg Vigdís Hauksdóttir.“

Vigdís Hauksdóttir óskaði eftir að gefa andsvar og bera af sér sakir. Hún sagði:

„Svona ætlar að borgarstjóri að tækla innri endurskoðanda um braggann, skýrslu skjalavarðar og tækla öll lögbrotin sem hann hefur staðið sjálfur að og er bent á í þessum skýrslum og hann hefur staðið að sem framkvæmdastjóri borgarinnar, að rifja upp einhverja samantekt á RÚV,“ sagði Vigdís og bætti við að hún hefði barist með gegn spillingu í samfélaginu. Fannst henni fyrir neðan beltisstað að Dagur væri að lesa upp frétt RÚV frá árinu 2016. Vigdís bætti við:

„Finnst ykkur þetta ekki stórmannlegt af æðsta yfirmanni borgarinnar. Snúa málinu sér í hag og hjóla í mig persónulega,“ sagði Vigdís og bætti við að lokum:

„Hann notar sjálfur starfsmenn sína sem mannlegan skjöld og þegar eitthvað er gagnrýnt hjá Reykjavíkurborg  segir hann:

„Það er verið að ráðast á starfsfólkið mitt.“

„Þetta eru aumingjaleg vinnubrögð en alveg í anda borgarstjóra sem er kominn út í horn og hangir á horreiminni í sínum stól. Ráðast á persónu mína.  Vel gert Dagur B. Eggertsson. Eini starfandi maður sem var í Braggamálinu. Til hamingju.“

Hér má sjá ræði Dags B. Eggertssonar þar sem hann hjólar í Vigdísi:

 

Hér svarar Vigdís Hauksdóttir fyrir sig: