Sauð upp úr á alþingi: steingrímur j. hvessir sig – sjáðu myndbandið

Það gekk mikið á við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Þá gerðu stjórnarliðar hróp að tveimur þingmönnum Samfylkingarinnar. Steingrímur J. Sigfússon hótaði að slíta þingfundi ef þingmaður Pírata myndi ekki hætta að grípa fram í fyrir sér.  Á móti sakaði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, Steingrím um að trufla ræðu sína ítrekað. RÚV fjallaði um málið.

Helgi gagnrýndi harðlega að taka ætti við viðbótarsamning ríkisins við kirkjuna á dagskrá með afbrigðum. Helgi Hrafn sagði samninginn vera þann óheiðarlegasta sem gerður hafi verið á Íslandi.

„Það er til algjörrar skammar, virðulegi forseti, að þessi mál, viðbótarsamningurinn, sé sett á dagskrá með þessum fyrirvara þegar það er ljóst að það verður ekki full meðferð nefndar á málinu, miðað við tímarammann sem við setjum okkur hér ...“

Steingrímur gerði í tvígang athugasemd við ræðu Helga og sagði efnislega umræðu um málið ekki eiga heima undir liðnum störf forseta. Þá steig Halldóra Mogensen í pontu og furðaði sig á að forseti þingsins væri að trufla ræðu Helga Hrafns en gerði engar athugasemdir við ræður annarra. Helgi steig svo aftur í pontu og þvertók fyrir að hafa misnotað dagskrárliðinn. Þá sagði Helgi einnig:

„Og nota jólin sem einhverja enn eina tilfinningalegu kúgunina til að koma hagsmunum Þjóðkirkjunnar að umfram aðra trúsöfnuði í landinu.“

Steingrímur svaraði Helga á þá leið að 40 þingmenn hefðu orðið vitni að því að Helgi hefði farið í efnislega umræðu og þannig út fyrir dagskrárliðinn. Helgi svaraði fyrir sig úr þingsal og við það reiddist Steingrímur, sló í bjölluna og sagði:

„Eitt verður ekki liðið, að þingmenn grípi fram i fyrir forseta sínum og þessum fundi verður slitið ef þingmenn ætla að halda slíku áfram.“

Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar tjáði sig einnig og sagði:

„Það er óþarfi að láta eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar mæti ekki til starfa hérna þegar það var alveg eins stjórnarliðar sem voru ekki hér.“

Við það komst Helga Vala ekki lengra því hrópað var úr sal að orð hennar væru ómerkileg, kostuleg og ósanngjörn.