Samtök iðnaðarins segja að rúv eigi að fara eftir lögum - höfnuðu fundi með samtökunum

Samtök iðnaðarins segja að niðurstöður í skýrslu Ríkisendurskoðunar á RÚV staðfesti sjónarmið samtakanna, en í skýrslunni kemur fram að RÚV er skylt að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur. Segjast samtökin fagna áherslum mennta- og menningarmálaráðherra til málsins sem hvetja þau stjórn RÚV til að hraða vinnu við að færa samkeppnisrekstur í dótturfélög. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins.

Fyrir rúmu ári síðan sendu Samtök iðnaðarins stjórn RÚV bréf þess efnis að RÚV beri að stofna og reka dótturfélög utan um samkeppnisrekstur sinn. Samtökin segja að það hafi vakið athygli stjórnar RÚV á því að núverandi skipulag félagsins væri í beinni andstöðu við lagaákvæði og að það væri skylda stjórnar RÚV, að viðlagðri ábyrgð, að sjá til þess að skipulag og starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Þá óskuðu Samtök iðnaðarins eftir að stjórn RÚV kæmi starfseminni þegar í stað í lögmætt horf með því að setja allan samkeppnisrekstur í dótturfélag. Segja samtökin að stjórnarformaður RÚV hafi hafna ósk þeirra um fund vegna málsins.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að RÚV beri að stofna og reka dótturfélag sem annist allan samkeppnisrekstur og segja samtökin að á því leiki ekki lagalegur vafi. Þá segja samtökin að það sé fagnaðarefni að Ríkisendurskoðun taki undir þau sjónarmið sem þau hafa sett fram um að RÚV beri skylda til að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur.