Samtök iðnaðarins segja að öryggi og heilsa landsmanna sé að veði - vilja auka eftirlit til að stöðva fúskara

Formenn 12 meistarafélaga á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar innan Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins segja að það er með öllu óásættanlegt að ekkert opinbert eftirlit sé með þeim fjölmörgu lögvernduðu iðngreinum sem iðnaðarlögin ná til og engin úrræði til að stöðva ófaglærða aðila sem ganga inn á svið lögverndaðra iðngreina þrátt fyrir kærur til lögreglu og kvartanir til Neytendastofu. Þetta kemur fram í ályktun frá Samtökum iðnaðarins.

Þá segir í ályktuninni að á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar sé mikilvægt að hægt sé að grípa þegar í stað til úrræða sem stöðva fúskara sem ekki hafa tilskilin lögmæt réttindi. Samtökin segja að öryggi og heilsa landsmanna að veði. Meistaradeild Samtaka iðnaðarins segjast hafa barist fyrir þessu málefni í mörg ár en samtökin segja að dæmin sanni að engin úrræði séu til staðar til að stöðva ólögmæta starfsemi í lögvernduðum iðngreinum.