Ríkisstjórnin styrkir norrænu lýðheilsuráðstefnuna um tvær milljónir króna

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita tvær milljónir króna af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu til embættis landlæknis vegna Norrænu lýðheilsuráðstefnunnar sem haldin verður í Hörpu í júní næstkomandi.

Norræna lýðheilsuráðstefnan hefur verið haldin þriðja hvert ár frá árinu 1987 en síðast var hún haldin á Íslandi árið 2005. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Heilsa og vellíðan fyrir alla - horft til framtíðar“ og er megináhersla lögð á eftirfarandi umfjöllunarefni: áhrifaþætti heilsu og vellíðanar, stefnumótun lýðheilsu og gagnadrifið lýðheilsustarf. Á sama tíma fer fram í Reykjavík evrópsk ráðstefna um jákvæða sálfræði og munu ráðstefnurnar bjóða upp á sameiginlega dagskrá um þróun mælikvarða til að meta hagsæld, lífsgæði og framþróun í samfélögum.

Ráðstefnan er unnin í samstarfi við neytenda- og matvælastofnun Evrópusambandsins (CHAFEA) sem mun bjóða upp á dagskrá um áfengis- og vímuvarnir. Mikill áhugi er fyrir ráðstefnunni og er gert ráð fyrir um 400 þátttakendum frá mörgum löndum.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru Ola og Anna Rosling, stofnendur Gapminder og höfundar bókarinnar Factfulness, Felicia Huppert, prófessor og stofnandi rannsóknarstofnunar um velsæld við Cambridge háskóla, og Chris Brown, yfirmaður hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem unnið hefur að þróun mælikvarða um jöfnuð. Þá halda einnig erindi Alma D. Möller landlæknir og Dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor og forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining við Háskólann í Reykjavík.