Ríkisstjórnin skilur enn ekki til fulls það sem skrifað er á vegginn

Fyrstu viðbrögð formanna Sjálfstæðisflokks og VG við Samherjamálinu voru þau að ekki ætti að ræða önnur álitaefni en þau sem saksóknari og skattrannsóknarstjóri fá til meðferðar. Fjármálaráðherra færði fram þau rök fyrir þessari skoðun að engin efni stæðu til þess að taka til umræðu reglur sem tengdar eru fiskveiðistjórnun af því að háttsemi eigenda og stjórnenda Samherja hafi ekki verið fiskveiðistjórnunarkerfinu að kenna.

Nú er það lauk rétt að háttsemi þeirra skrifast ekki á reikning kerfisins. Háttsemi manna getur aftur á móti valdið því að bæta þurfi leikreglur til þess að auka líkur á því að hún sé í samræmi við almennt viðurkennd siðferðileg viðmið. Þá umræðu er ekki unnt að kæfa.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgunn, 19. nóvember, er fyrsta vísbending um að þröngsýnin sem einkenndi fyrstu viðbrögð stjórnvalda sé á undanhaldi. En miklu meira þarf að koma til. Enn stendur til að kæfa umræðu um mikilvæg atriði.

Háttsemi Samherja hefur ekki vakið spurningar um megin grundvöll fiskveiðistjórnunarkerfisins. En hún hefur sýnt fram á að skynsamlegt getur verið að breyta sumum leikreglum kerfisins til þess að byggja upp traust. Traust er því mikilvægara í sjávarútvegi en öðrum greinum fyrir þá sök að um er að ræða einkaréttindi fyrir fáa til að hagnýta auðlind þjóðarinnar allrar í hennar þágu. Það er skynsamleg skipan, en hún stendur og fellur með trausti.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi:

1. Tímabundinn veiðiréttur

Í áliti auðlindanefndar frá árinu 2000 er lagt til að afnotaréttur úr sameiginlegum auðlindum skuli vera bundinn til tiltekins tíma í senn. Allir flokkar áttu aðild að nefndinni. Samtök útvegsmanna lýstu því strax yfir að þau gætu fallist á þessa skipan mála að því tilskyldu að tíminn væri nægjanlega langur.

Þrátt fyrir fyrstu viðbrögð samtaka útgerðarfyrirtækja á þessum tíma hófu Samherji og nokkur önnur áhrifarík útgerðarfyrirtæki að vinna gegn þessu samkomulagi. Það er aftur ástæðan fyrir því að þeir flokkar sem mynda núverandi ríkisstjórn hafa ekki staðið við álit auðlindanefndarinnar.

Tímabinding afnotaréttarins er eina færa leiðin til þess að sameign þjóðarinnar hafi efnislega merkingu en sé ekki bara tóm orð. Spurningin er: Á að láta þetta siðferðilega álitaefni kyrrt liggja? Er það hægt eftir það sem á undan er gengið?

2. Eðli auðlindagjalds

Í áliti auðlindanefndar er ekki gerð tillaga um upphæð auðlindagjalds né heldur aðferð við að leggja það á. En gjaldið er skilgreint sem greiðsla fyrir afnotarétt í tiltekinn tíma. Það þýðir líka að allir eiga að greiða sama gjald fyrir jafn mikinn veiðirétt. Og tengsl þurfa að vera á milli gjaldsins og varanleika réttindanna. Ekkert af þessu hefur náð fram að ganga.

Samherji og önnur útgerðarfyrirtæki, þar á meðal smáútgerðir, hafa á hinn bóginn ráðið því að farin hefur verið önnur leið hagstæðari þeim en óhagstæðari eigendum auðlindarinnar. Í stað þess að greiða fyrir virði afnotaréttarins er lagður á auka tekjuskattur. Það er leið sem auðlindanefndin hafnaði.

Þetta þýðir að fjárfesting útgerðarfyrirtækja, hvort heldur sem er í eigin rekstri eða óskyldri starfsemi, lækkar viðbótar tekjuskattinn. Í raun eru eigendur auðlindarinnar því að styrkja eigendur útgerðanna til þess að auka eignir sínar. Fjárfestingin er sjálfsögð, en hún á bara ekki að vera styrkt af eigendum auðlindarinnar eins og nú er. Fyrir því eru engin siðferðileg rök.

Hvernig í ósköpunum er unnt að halda því fram að síðustu atburðir gefi ekki tilefni til þess að ræða þessar öfugsnúnu reglur sem eru í engu samræmi við þá víðtæku sátt sem gerð var í auðlindanefndinni á sínum tíma.

3. Upphæð auðlindagjalds

Fram hafa komið upplýsingar um greiðslur Samherja í Namibíu fyrir veiðirétt. Þar er um að ræða sérstakar greiðslur, (meintar mútur), og almennar greiðslur. Þær sýna hvað fyrirtækið er reiðubúið til að greiða fyrir veiðirétt í öðrum löndum.

Hvernig geta forystumenn stjórnarflokkanna haldið því fram að ekki megi bera þessar upplýsingar saman við það sem fyrirtækið greiðir hér heima? Hvers vegna á að kæfa þá umræðu?

4. Dreifð eignaraðild

Á sama tíma og sett var þak á heildaraflahlutdeildina fyrir tuttugu árum var fest í lög að þau fyrirtæki, sem ættu á milli tíu og tólf prósent heimildanna, skyldu vera í dreifðri eignaraðild. Um þetta var breið samstaða allra flokka á alþingi.

All nokkrum árum síðar var ákveðið að fella þetta ákvæði um dreifða eignaraðild úr lögum. VG barðist hatrammlega gegn þeirri breytingu. Nú tekur forsætisráðherra og formaður VG sér stöðu með Sjálfstæðisflokk, Framsókn og Miðflokk, sem segja að síðustu atburðir gefi ekkert tilefni til að ræða hvort taka eigi ákvæði af þessu tagi upp í lög á nýjan leik. Á þetta er ekki minnst í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Hér er um mjög stórt siðferðilegt álitaefni að ræða í ljósi þess að fyrirtæki hafa einkarétt til að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Ætla má að minni líkur séu á að atvik af því tagi, sem nú eru komin upp á yfirborðið, eigi sér stað í fyrirtækjum þar sem eignaraðildin er dreifð. Af hverju má ekki ræða það af gefnu tilefni?

5. Sniðganga um regluverkið

Í dag eru ákvæði um tengda aðila og virk yfirráð í félögum, til að mynda í fjármálafyrirtækjum, miklu þrengri en í lögunum sem sett voru um þak á heildaraflahlutdeild fyrir meir en tveimur áratugum. Þau eru að því leyti barns síns tíma. Samherji hafði frumkvæði að því að sniðganga markmið laganna. Þau eru nú haldlaus með öllu.

Lengi hefur verið ljóst að framganga Samherja í þessum efnum kallaði á að glufu í lögunum yrði lokað með sambærilegum viðmiðum eins og nú gilda á öðrum sviðum í atvinnulífinu. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar felur í sér viðurkenningu á þessu. En með öllu er þó óljóst hvernig hún hyggst bregðast við.

6. Skráning stærstu handhafa aflahlutdeildar á hlutabréfamarkað

Í upphafi aflahlutdeildar kerfisins var mestur hluti helstu sjávarútvegsfyrirtækja skráður á almennum hlutabréfamarkaði. Það þýddi meðal annars að gerðar voru kröfur um lágmarks fjölda eigenda. Fyrirtækin urðu jafnframt að fylgja strangari kröfum um opinbera upplýsingagjöf. Fyrir vikið voru fjárhagsmálefni þeirra gegnsærri.

Þetta var bæði eðlilegt og nauðsynlegt í ljósi þess að fyrirtækin höfðu einkarétt á veiðum úr sameiginlegri auðlind fólksins í landinu. Smám saman hurfu sjávarútvegsfyrirtækin af hlutabréfamarkaðnum. Aðeins eitt er eftir. Hinum fannst gegnsæið óþarft eða bara óþægilegt.

Hafi mönnum ekki verið það ljóst hversu mikilvægt er að tryggja þetta gegnsæi ættu síðustu atburðir í málefnum Samherja að opna augu þeirra fyrir því. Fyrir viku mátti ekki nefna aðgerð af þessu tagi, en nú sýnist ríkisstjórnin vera byrjuð að gefa eftir en þó í mjög takmörkuðum mæli.

Ríkisstjórnin vill til að mynda ekki að sjávarútvegsfyrirtækin uppfylli almenn skilyrði skráðra fyrirtækja um fjölda hluthafa. Og hún vill ekki að viðskipti með hlutabréf stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna lúti almennum reglum sem gilda á hlutabréfamarkaði. Hvað veldur?

Ríkisstjórnin hefur vissulega opnað litla glufu í varnarvegg sinn gegn breytingum í þágu almannahagsmuna á þessu sviði. Enn sem komið er virðist ríkisstjórnin þó ekki skilja til fulls það sem Samherjamálið hefur skrifað á vegginn.