Reykjavíkurborg mun ekki kæra brot - segist vera ósammála skýrslu innri endurskoðanda og borgarskjalasafns

Reykjavíkurborg mun ekki kæra brot á lögum um opinber skjalasöfn sem koma fram í skýrslu Borgarskjalasafns Reykjavíkurborgar. Þetta staðfestir Óskar Jörgen Sandholt ,sviðsstjóri þjónustu og nýsköpunarsviðs, en Borgarskjalasafn Reykjavíkur heyrir undir það svið. Var Borgarskjalasafn fært undir það svið nokkrum mánuðum eftir að það hóf rannsókn að eigin frumkvæði á meðferð gagna sem tengjast braggamálinu.

Í samtali við Hringbraut segir Óskar að hann sé ósammála bæði skýrslu innri endurskoðenda Reykjavíkurborgar og skýrslu Borgarskjalasafn Reykjavíkur um að lögbrot hafi átt sér stað þegar kom að vistun gagna vegna braggamálsins, en sum gagna voru orðin rúmlega 5 ára gömul þegar þau voru loks sett inn í gagnageymslukerfi Reykjavíkurborgar. 

„Nei, ekki við, ekki borgin. Enda held ég, ég er ekki endilega sammála því að hérna að það sé ekki heimilt að færa skjöl inn í mál sem er opið. Það er bara viðtekin venja, þegar þú ert að reka mál að meðal mál eru opin í skjalakerfi borgarinnar þá flytur fólk skjöl inn, alveg þangað til að málið er lokað“, segir Óskar.

Nú erum við að tala um allt að 5 ára gömul gögn?

„Þetta bara viðtekið vinnulag, ekkert bara í þessu máli. Ég er ekkert að verja það, það hefði náttúrulega verið betri vinnubrögð að færa þessi skjöl reglulega inn. En það sem ég er að segja að þetta er ekkert óvenjulegt eða sérstakt í þessu sambandi“.

Þannig það er ekkert óvenjulegt að það sé verið að fremja lögbrot innan Reykjavíkurborgar?

„Ég held að þetta. Ef menn vilja túlka þetta sem lögbrot, ég held að það sé nú bent á það í skýrslunni að bæði Þjóðskjalasafn hafi gert sambærilegar athugasemdir út af starfsháttum hjá ríkinu og Borgarskjalasafn hafi svo sem gert þetta áður í svona úttektum hérna“. 

En í skýrslunni er talað um dæmi þar sem starfsmaður biður um skjöl sem ekki er hægt að opna?

„Já eins og ég segi, ég þekki ekki nákvæmlega þau skjöl, enda það sem er kannski meginatriðið í þessu er að þegar þessum málum er lokað þá eru öll þessi skjöl prentuð út vegna þess að Gopro grunnur borgarinnar er ekki, hefur ekki heimild til rafrænnar skjalalangtímavörslu, þannig þessi skjöl eru prentuð út. Þannig hvort sé hægt að opna þau þarna eða á öðrum tímapunkti þekki ég ekki. Þetta eru ekki fyrirmyndarvinnubrögð, ég ætla ekki að segja það, alls ekki fyrirmyndarvinnubrögð. Ég per sé get ekki svarað fyrir skjalavörslu í þessu máli“.

Ekki náðist í Bjarna Brynjólfsson, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.