Rauk út úr hallgrímskirkju: „þetta er ekki krist­in kirkja!“

Bandarískur ferðamaður strunsaði út úr Hallgrímskirkju í gær. Hann var ósáttur eftir að hafa gengið fram á regnbogafána sem blasti við söfnuðinum á kórtöppum kirkjunnar. Starði hann á fánann í nokkra stund og rauk svo út úr kirkjunni og fram í Guðbrandsstofu. Þar hitti hann kirkjuvörð. Mbl.is vekur athygli á þessu en samtal ferðamannsins og kirkjuvarðarins var á þessa leið:

 „Af­sakið, er þetta regn­boga­fáni í kirkj­unni?“ mun ferðamaður­inn hafa spurt og játti kirkju­vörður­inn því.

 „Hvers vegna myndi kirkja hafa svona lagað?“ spurði hann í kjöl­farið og fékk þau svör varðar­ins að ást guðs væri fyr­ir allt fólk, burt­séð frá kyn­hneigð þess eða bak­grunni.

„Jesús myndi aldrei samþykkja það,“ full­yrti sá banda­ríski þá. „Jú, það myndi hann gera,“ svaraði kirkju­vörður­inn en upp­skar þvert nei ferðamanns­ins.

„Ég er hrædd­ur um að við mun­um þurfa að vera ósam­mála um það,“ sagði kirkju­vörður­inn og reyndi þannig að leysa úr deil­unni.

„Þetta er ekki krist­in kirkja!“ svaraði Bandaríkjamaðurinn, bætti við að þetta væri hneisa og strunsaði með það út.

Á síðu kirkj­unn­ar er þess að lok­um getið að hún standi með fjöl­breyti­leika og lit­ríki lífs­ins.