Rauð viðvörun á norðurlandi: ofsaveður og fárviðri gengur yfir svæðið

Rauðri viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra hefur verið flýtt til kl. 16 þar sem mælingar og áhrif eru nú þegar áþreifanleg. Einnig hefur viðvörun fyrir Norðurland Eystra verið endurskoðuð og er nú rauð frá kl. 16. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Norðan ofsaveður og jafnvel fárviðri gengur nú yfir á þessu svæði, 25-33 m/s, með mikilli snjókomu og skafrenningi.

Víðtækar samgöngutruflanir verða viðvarandi og líkur eru á tjóni og/eða slysum. Ekkert ferðaveður er á svæðinu.

Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðurspám.