Mynd dagsins: þetta er munurinn á röggu sex að morgni og eftir hálftíma förðun, sprautulakkaðan haus og sparslað í hverja hrukku - enginn fílter í raunheimum

Þessi mynd sem birtist á Instagram reikningi Naglans er uppstríluð glansmynd í útpældri lýsingu.

„Glamúr og glimmer.
Hálftíma förðun.
Sprautulakkaður haus með ósonfjandsamlegu hárlakki.
Sparslað í hverja hrukku.
Fallegur filter valinn fyrir bestu skyggingu.“

Á þessum orðum hefur Ragga Nagli nýjasta pistil sinn.

\"\"

Ragga hefur verið þekkt fyrir að miðla heilbrigðum boðskap til fólks en hún er sálfræðingur sem leggur áherslu á heilsuvenjur. Ragga er einnig einkaþjálfari sem temur sér jákvæða hugsun, hollar matarvenjur og lyftingar. Hún heldur áfram og segir:

„Þar sem við skrollum samfélagsmiðlana blasa uppstríluð, meiköppuð smetti í hvívetna af Fési Insta, Tísti og Snappi.

Samfélagsmiðlar geta verið harður húsbóndi.
Þeir birta okkur leikritið.
Bara það sem við megum sjá.

Hér sé fullkominn æðri kynstofn á ferð.
Halló Jósef Göbbels.

Fólk sem vaknar með rennislétta, flekklausa húð og glansandi augu og sprettur hlæjandi fram úr rúminu.

Að pósta glimmerstráðum sýndarveruleika slær bara ryki í augu samferðafólksins.
Sem innrætir \"ekki-nóguna\" hjá þeim sem skrolla í gegnum snjallsímann.

Gegndarlaus samanburður við tvívíðar verur á skjánum veldur kvíða, depurð og mylur sjálfstraustið mélinu smærra.

Grjótmygluð spegilmynd morgunsins kemur upp í hausinn og hellir olíu á sjálfseyðingabálið um að vera ekki nóg.

Ekki nógu falleg. Ekki nógu ungleg. Ekki nógu smart.
Ekki nógu mjó. Ekki nógu dugleg. Ekki nógu sterk. 

Það er Naglanum mikilvægt að mála ekki lífið bleikri málningu.
Það er hjartans mál að sýna mannleikann í allri sinni dýrð.

Þegar sparslið af prófessjónal förðunarpensli hefur lekið í niðurfallið erum við bara mannleg í speglinum.

Án farða. Án filters.
Klukkan núllsex að morgni. Nývöknuð.
Með bauga. Þreytt augu. Sigin augnlok.
Annað augað stærra en hitt.
Þunnar líflausar augabrúnir hangandi eins og lirfa á lokastigi.
Óskúrað baðherbergisgólf undir líkþornuðum iljunum.

Á leið á æfingu. Ekki að nenna því samt.“

Með háræðaslitnar og veðurbarðar kinnar og stórt nef eins og Gísli Súrsson í útlegð á mosavöxnu hálendinu.

Sýndarveruleiki sjálfsmella sendir röng skilaboð um að útlitið ákvarði verðleika okkar.

En við erum svo miklu meira en bara skelin.

Að vera góð eiginkona, systir, dóttir, vinkona er það sem skilgreinir Naglann.

Að vera góður sálfræðingur, þjálfari, fyrirmynd, fyrirlesari og gjallarhorn fyrir heilsusamlegan lífsstíl.

Að reyna sitt besta hvern einasta dag og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Það er það sem gerir Naglann að manneskjunni sem hún vill vera.

Ekki líkaminn. Ekki smettið. Ekki háræðaslit eða nefstærð.

Það er enginn fílter í raunheimum.\"