Pólitísk átök um bann gegn skattaskjólum

Pólitísk átök munu fylgja því að uppræta skattaskjól því hagsmunir þeirra ríku eru miklir. Þeir munu standa saman og segja að það hafi ekkert upp á sig að banna skjólin.

Þetta segir Oddný. G. Harðardóttir, fyrrum fjármálaráðherra, í bloggpistli.

\"Þessa röksemd höfum við reyndar heyrt hér á landi frá sjálfum fjármálaráðherranum sem nýtt hefur sér skattakjól en vill ekki segja af sér. Afsögn hefði verið óhjákvæmileg alls staðar annars staðar í Vestur Evrópu. En ekki á Íslandi og það er áhyggjuefni því það segir til um siðgæði og kröfur til stjórnmálamanna.\"

Oddný bendir á að Sergei Stanishev fyrrum forsætisráðherra Búlgaríu fari fyrir flokki jafnaðarmanna á Evrópuþinginu. Hann hafi rætt skattaskjólin á fundi hér inanlands nýverið. \"Sergei  minnti á að jafnaðarmenn hafi ætíð barist gegn skattaundanskotum hvers konar. Afhjúpanir með Panamskjölunum um þá sem hafa nýtt sér skattaskjól hafi snortið hug og hjörtu almennings víða um heim. Þau hafa vakið upp reiði og fólk getur ekki sætt sig við óréttlætið. Óréttlætið sem fylgir því að ríka fólkið sem nýtir sér skattakjól skuli vera til í að almenningur beri þeirra hlut með skattgreiðslum. Ríkisstjórnir hafa skorið niður í velferðarkerfum eftir hrun og bent á að ekki séu til nægir peningar í ríkiskössunum og því þurfi að skerða þjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Á meðan eru milljarðar í skattaskjólum sem ríka fólkið felur svo það þurfi ekki að greiða sinn hlut til samfélagsins, til heilbrigðisþjónustu, í vegi, löggæslu eða þróunarhjálp.\"